145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég hef átt sæti í þingskapanefnd Alþingis síðan ég tók sæti á Alþingi fyrir þremur árum. Hlutverk þingskapanefndar er að endurskoða lög um þingsköp og markmiðið er að bæta skilvirkni og ásýnd Alþingis sem er okkur öllum mjög hugleikin. Lítið hefur gerst í nefndinni í vetur þar sem við höfum rekið okkur á að nauðsynlegar breytingar sem mundu gera störf þingsins skilvirkari og ásýnd þingsins betri hanga á ákveðnum stjórnarskrárbreytingum, þannig að starf nefndarinnar er í raun stopp í bili.

En hvaða breytingar er ég að tala um? Jú, ég hallast t.d. að því að þegar umdeild stór mál stöðvast í þinginu verði að vera hægt að vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu, samanber í danska þinginu. Með slíku fyrirkomulagi mundum við geta komist hjá langdregnu málþófi sem kostar bæði tíma og peninga og hefur verulega neikvæð áhrif á ímynd þingsins.

Ég vil einnig nefna reglur um líftíma þingmála. Ég tel að þingmál eigi að fá að lifa kjörtímabilið til að auka skilvirkni þingsins en nú er staðan þannig að við þurfum alltaf að byrja á byrjuninni við setningu nýs þings, hvert einasta haust, leggja sömu málin fram að nýju, bíða eftir að fá að mæla fyrir þeim, fá umsagnir frá sama fólki og síðast o.s.frv. Það er algjör tímasóun að mínu mati sem kemur í veg fyrir að þjóðþrifamál fáist hér afgreidd.

Hæstv. forseti. Varðandi líftíma mála kemur fram í minnisblaði frá Ásmundi Helgasyni, fyrrverandi aðallögfræðingi Alþingis, frá 18. september 2008 að sú regla 48. gr. þingskapa, áður 52. gr. þingskapa, um að þingmál sem ekki hafi hlotið lokaafgreiðslu við þinglok falli niður — þetta er svokölluð discontinuitets-regla — verði ekki afnumin nema með stjórnarskrárbreytingu. Byggir hann niðurstöðu sína á því að um sé að ræða stjórnskipunarvenju sem verði ekki vikið til hliðar nema með stjórnarskrárbreytingu. Þessi niðurstaða er þó álitamál sem okkur hér ber skylda til að fara nánar í saumana á.


Efnisorð er vísa í ræðuna