145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Umræðurnar í störfum þingsins eru oft mjög gagnlegar og mikilvægar. Ég vildi óska þess að við hefðum betri leiðir til að tala um öll þau mál sem virðast hafa farið úr skorðum í samfélagi okkar. Það eru teknar hér stórar og miklar ákvarðanir sem síðan kemur í ljós að ekkert samráð er haft um, eins og kom fram í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur áðan. Ég fékk símtal rétt áðan frá vini mínum sem á vin sem var handtekinn og verið er að senda úr landi af því að hann er flóttamaður. Ég sat á fundi með Heimkomu, félagi gerðarþola umboðsmanns skuldara, þar sem komu fram mjög sláandi upplýsingar um fólk sem situr enn með óleyst mál eftir öll þessi ár, sem setur því svo þröngar skorður í lífinu að það tekur lífslöngunina frá fólki, þetta er svo erfitt.

Það er gleðilegt að Ríkisendurskoðun telur að tilraunir Tryggingastofnunar til að eltast við þá aðila í samfélaginu sem eru hvað viðkvæmastir varðandi möguleg bótasvik séu ekki heppileg aðferð. Maður heyrir endalaust um það sem er að í kerfinu okkar. Og hér erum við á Alþingi og það er hlutverk okkar að tryggja að samfélag okkar og þau kerfi sem við höfum tekið þátt í að búa til virki. Maður hlýtur að spyrja sig hvað sé að. Hvað hefur farið úrskeiðis og hvað getum við gert sem þingmenn? Það hefur komið fram að ekki hafa verið neinir fundir t.d. í þingskapanefnd þar sem við gætum til að mynda farið yfir það hvernig við getum sinnt störfum okkar betur. Ég vona að þetta (Forseti hringir.) lagist á næsta kjörtímabili því ég get ekki hugsað mér að vera á þessum vinnustað með bjölluglamur í eyrunum endalaust (Forseti hringir.) þar sem allt er (Forseti hringir.) brotið. Það er á ábyrgð þingsins (Forseti hringir.) og forseta þingsins (Forseti hringir.) sem vill ekki (Forseti hringir.)


Efnisorð er vísa í ræðuna