145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til þess að ræða um þá stöðu sem uppi er í nokkrum framhaldsskólum landsins, mikilvægustu menntastofnunum okkar á því stigi. Staðan er sú að nokkrir framhaldsskólar hafa ekki fengið neitt rekstrarframlag til annars reksturs en húsaleigu og launa síðan um áramót. Það er auðvitað algerlega óásættanleg staða. Það er í raun til þess fallið að auka vanda þessara framhaldsskóla. Þessir skólar eru með halla frá undangengnum árum og hefur það verið markmið og metnaður skólastjórnenda þar að greiða eins mikið af þeim skuldum og mögulegt hefur verið á hverju ári. En auðvitað er staðan sú að ekki hefur verið hægt að rétta af hallann á einu ári.

Nú gerist það, og það virðist reyndar vera svolítið óljóst af hverju það stafar, að þessir skólar hafa fengið þau svör að þeim sé ætlað að greiða upp hallann áður en þeir fái rekstrarframlag. Það hefur ekki gerst áður. Stjórnendur skólanna voru því algerlega óundirbúnir undir þá stöðu og höfum við, þingmenn Norðausturkjördæmis og fleiri kjördæma, verið að vinna að því að lausn finnist á málinu. Ég vona svo sannarlega að að því komi að viðunandi lausn finnist. Ég veit að bæði fjármálaráðherra og menntamálaráðherra hafa lagt sitt af mörkum til þess að svo geti orðið og þakka ég þeim fyrir það. Ég hef átt góð samtöl við þá. En þessa stöðu verður að leysa upp. Þessir skólar verða að fara að fá rekstrarframlag. (Forseti hringir.) Það er komið fram í lok maí.


Efnisorð er vísa í ræðuna