145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða örlítið stöðuna á vinnumarkaði. Nú er svo komið að atvinnuleysistölur hafa lækkað hratt og mikil merki eru um ofþenslu á íslenskum vinnumarkaði. Því miður eru þessi merki ekki vegna þess að okkur hafi tekist að styrkja eða byggja upp þekkingarhagkerfi, heldur er þenslan ekki síst í láglaunastörfum. Farið er að bera á því aftur í talsverðum mæli að erlent starfsfólk sé fengið til þess að starfa í láglaunastörfum. Þess vegna vil ég að við ræðum það áður en í óefni er komið að við lærum af reynslu okkar frá því fyrir hrun þegar erlent starfsfólk starfaði hér oft við mjög slæmar aðstæður þar sem jafnvel komu fram merki um mansal og að troðið væri á réttindum erlends starfsfólks.

Í ágætri yfirferð og skýrslu velferðarráðherra um málefni innflytjenda sem kom hingað í þingið á dögunum er kafli um vinnuslys þar sem fram kemur að árið 2006 hafi erlendir ríkisborgarar verið 7% af vinnumarkaðnum, en 30% skráðra vinnuslysa voru tengd erlendum starfsmönnum. Árið eftir var hlutfallið svipað.

Nú síðustu daga höfum við heyrt dæmi þar sem erlent starfsfólk er þolendur í mansalsmálum. Það er mikilvægt að við reynum að byrgja brunninn áður en illa fer. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni atvinnulífsins og okkar hér sem setjum umgjörðina utan um það.


Efnisorð er vísa í ræðuna