145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[15:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli, enda er þetta eitthvað sem er mjög flókið. Þarna erum við að takast á við eina innstu og eðlislægustu girnd mannsins sem er í raun og veru sú að við erum kynverur. Það er rétt sem hefur komið fram að í skjóli kampavínsklúbba og á lokuðum svæðum hefur verið stundað mansal af verstu sort. Það á ekki að líðast. Hins vegar þarf líka að íhuga hvort boð og bönn séu endilega það sem mun ná mestum árangri.

Á síðasta ári lýsti Amnesty International því yfir að samtökin styddu afglæpavæðingu á vændi, sem dæmi. Ástæðan fyrir því er sú að undanfarin 20 ár hefur Amnesty International barist fyrir kvenréttindum og fundið út úr því að með því að gera vændi að einhverju sem er glæpur er ekki verið að vernda réttindi kvenna. Ég tel mjög mikilvægt að horfa á þetta út frá skaðaminnkunarsjónarhorni. Ef það þýðir að við þurfum kannski að nota eitthvað annað en boð og bönn til að ná því markmiði að ekki sé stundað mansal, að erótísk afþreying og maðurinn sem kynvera fái líka að njóta sín á heiðarlegan og sanngjarnan hátt, er það kannski leið en ég er ekki viss. Við þurfum bara að halda áfram að spyrja okkur að þessu. Það þarf líka að passa upp á það, ef fólk vill stunda svona lagað, hvernig hægt að gera það á heiðarlegan hátt þar sem mannhelgi og mannréttindi einstaklinga eru virt.