145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[15:52]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka umræðuna. Nafnið kampavínsklúbbur er dregið af því að ungar konur í ögrandi klæðnaði fá viðskiptavini til þess að kaupa kampavín dýru verði og fá félagsskap þeirra í kaupbæti. Í mars á þessu ári samþykktum við á Alþingi breytingar á almennum hegningarlögum er vörðuðu forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi, en þær komu til vegna samnings Evrópuráðs um sama efni frá 2011 sem oftast er kallaður Istanbúl-samningurinn. Kynferðisleg áreitni, þvinganir til kynferðislegra athafna, nauðganir; þetta eru allt brot á mannréttindum kvenna og stúlkna. Baráttan gegn þessu er stór þáttur í jafnréttisbaráttunni. Sameiginlegt markmið samningsins er m.a. að vernda konur gegn öllum birtingarmyndum ofbeldis og fyrirbyggja það og að uppræta allar birtingarmyndir mismununar gegn konum.

Í apríl 2013 var samþykkt af þáverandi ríkisstjórn aðgerðaáætlun gegn mansali fyrir árin 2013–2016. Á þessum tíma hefur verið unnið vel að þeim markmiðum og hefur áætlunin verið endurskoðuð á tímabilinu. Síðasta haust hófst svo þverfagleg vinna ráðuneyta í málaflokknum og á þessu ári er stefnt að átaki gegn vinnumansali. Í dag hefur orðið mikil vitundarvakning í því hversu kynningu fyrir erlenda starfskrafta um réttindi þeirra og skyldur við íslenskt samfélag er ábótavant. Það er enn eitt atriðið sem við verðum að huga að í sambandi við þessa starfsemi þar sem erlendar konur og stúlkur eru í ríkari mæli starfsmenn en íslenskar.

Ef starfsemi kampavínsklúbba er eðlileg þjónusta og afþreying, hvers vegna er hana þá aðeins að finna á höfuðborgarsvæðinu? Hvers vegna er konum meinaður aðgangur að þessum stöðum nema í fylgd með karlmönnum? Umræðan á snúast um réttindi, mannréttindi, eftirlit og að framfylgja skyldum okkar. Í dag finnst mér hún snúast allt of mikið um úrræðaleysi gagnvart þessu.