145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[15:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Ég held að allir hér inni geti tekið undir það að við erum á móti mansali og viljum með öllum tiltækum ráðum berjast gegn því. Hins vegar er í íslenskum lögum heimilt að stunda vændi, en það er bannað að kaupa vændi. Þannig að tvískinnungur þeirra laga er alger.

Starfsemi klúbba eins og kampavínsklúbba er háð leyfisskyldu. Þetta er leyfisskyld starfsemi. Þar af leiðandi ber þessum klúbbum að fara að lögum. Ef ekki er farið að lögum þarf að taka á þeim rekstri eins og öllum öðrum rekstri sem hvikar frá því leyfi sem hann hefur til að starfa. Það er mikilvægt að hvers kyns starfsemi sem háð er leyfi búi við sama umhverfi, að hún geti starfað svo framarlega sem hún fer ekki út fyrir þau lög sem leyfið veitir.

En ég gæti ekki fallist á það, virðulegur forseti, að breyta lögum vegna þess að menn detti inn á þessa staði í misjöfnu ástandi, eins og hv. framsögumaður nefndi, vegna þess að menn geti ekki borið ábyrgð á eigin gjörðum og staðið sjálfir á sínu. Mér finnst það ekki vera ástæða til að breyta lögum. En ég ítreka að þessi rekstur eins og allur annar rekstur er háður leyfi. Fari menn gegn því leyfi og lögum sem það byggir á, þá á að loka slíkri starfsemi.