145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[16:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa stuttu yfirferð yfir nefndarálitið. Ég hjó eftir því að í umsögn Íslandsstofu kemur fram að alþjóðlegt myndrænt efni, bíómyndir, heimildarmyndir, sjónvarpsþættir, tónlistarmyndbönd, sem sýnir íslenska náttúru, virðast vera í fjórða sæti yfir það sem fólk nefnir sem svar við spurningunni: Hvaðan kom hugmyndin að Íslandsferð? Ég sé hins vegar ekki í nefndarálitinu neina umfjöllun um það hvaða áhrif þetta kæmi til með að hafa á íslenskan kvikmyndaiðnað eða þá sýnina á Ísland út á við. Því velti ég fyrir mér hvort það hafi verið rætt í nefndinni, ýmist af gestum eða nefndarmönnum sjálfum, eða eitthvað í því sambandi. Það er þá tvíþætt; að hversu miklu leyti þetta varðar íslenska kvikmyndaframleiðslu og hins vegar hvaða þátt það á í þessari afgreiðslu að ferðamenn komi hingað að hluta til vegna þess að þeir upplifa Ísland í gegnum kvikmyndir, tónlistarmyndbönd og því um líkt.