145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta ásamt mörgu öðru kom til umræðu í nefndinni. Ég get bara svarað almennt í þeim efnum. Viðhorfin voru þau að kvikmyndagerð, hvort sem hún væri innlend eða erlend og tekin upp hér á landi, hefði mjög jákvæða ímynd fyrir landið og það hefði sýnt sig hingað til. Þess vegna væri akkur í því að við héldum áfram þeirri vegferð sem við höfum verið á þó nokkuð lengi, að vera með þessar endurgreiðslur varðandi kvikmyndagerð. Þessu er þannig stakkur sniðinn. Þetta er framlenging til ársins 2021 og endurgreiðsluhlutfallið er hækkað í 25% til að mæta samkeppni við önnur lönd sem eru líka að sækjast eftir kvikmyndagerð til síns lands. Ég tel að fólk sé að upplifa það og sjá að það skiptir miklu máli hvaða endurspeglun viðkomandi land fær út í hinn stóra heim í gegnum kvikmyndir, tónlistarmyndbönd og allt sem heyrir undir þessa fjölmiðlun sem vekur athygli með jákvæðum hætti á viðkomandi landi. En ég held að við þurfum bara að vanda okkur. Ég hugsa líka til þess hvernig við göngum um náttúruna, að það komi vel fram að við metum náttúru landsins mikils og viljum að kvikmyndagerðin endurspegli það að ganga þurfi um hana af virðingu og skila henni í því sama ásigkomulagi og hún var þegar kvikmyndafyrirtæki fara í upptökur við ýmsar þekktar náttúruperlur hér á landi.