145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[16:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á, í ljósi þessa ágæta svars hv. þingmanns, að í raun sé enginn ágreiningur um að það sé landinu til heilla að styrkja þennan iðnað með þessum hætti, sérstaklega til lengri tíma og að það hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Samkvæmt fylgiskjali sem fylgir umsögn Íslandsstofu sé ég ekki betur en að 14,3% svarenda segi að þaðan hafi hugmyndin að Íslandsferð komið. 14,3% ferðamanna er auðvitað heilmikið. Þó með þeim fyrirvara að ekki er um mjög marga þátttakendur að ræða; einungis 174 svör. En þetta hlýtur þó að gefa okkur einhverja vísbendingu. Það var þess vegna sem mér þótti við hæfi að spyrja að þessu. Ég tel svarið frá hv. þingmanni mjög skýrt og eftir því sem ég fæ best séð er þetta ekki umdeilt atriði.