145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[17:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mjög mikið var gert úr hlutverki mennta- og starfsþróunarsetursins, eins og við munum, í nefndinni. Ég tek alveg undir það sem hv. þingmaður sagði að það eru samlegðaráhrif að hafa það þarna inni. Það var samt eitt af því sem var mjög mikið rætt, að það væru nýmæli að þetta starfsþróunarsetur ætti beinlínis að sjá um verknámið, ætti að halda algjörlega utan um það að skipuleggja það í samstarfi við háskóla. Það er líka farið yfir það í nefndarálitinu okkar hvað það á að gera. Ég vil að við ræðum kostnað í þessu samhengi. Ef við erum að tala um að vísa töluverðum hluta af endurmenntun inn í símenntunarstofnanir háskóla þá kostar það mjög mikla peninga. Þar er hvert námskeið mjög dýrt. Vissulega getur verið að hægt verði að ná góðum samningum þannig að greiða megi námið niður, ég ætla ekkert að fullyrða um það, en það verður líka að hafa í huga að ef endurmenntun hefur verið ábótavant, eins og hér hefur verið sagt, þá hlýtur eitthvert átak að þurfa að vera í gangi, þ.e. að við komum sem flestum í endurmenntun á einhverjum tilteknum tíma. Það er jú það sem við viljum með því að slík menntun svari kröfum tímans hverju sinni.

Eins og ég skil þetta setur og eins og það var lagt upp fyrir okkur þá er verið að færa þangað inn verkefni sem nú þegar hafa verið á höndum tiltekinna aðila, en það á að víkka út sviðið og stækka það. Vissulega er hægt að gera það þannig að í byrjun séu það einungis mjög fáir og síðan þróist það lengra, en það má líka velta því fyrir sér hvort við eigum að gera þetta. Ef farið verður með þetta upp á háskólastig eigum við þá ekki að standa faglega að málum og gera þetta almennilega? Við erum alltaf að plástra, búa til eitthvað lítið og ætlum svo að reyna að bæta við. Það er kannski það sem verið er að ræða.