145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem ég tel að við séum að gera, við erum að gera þetta almennilega núna. Við erum að gera þessa grundvallarbreytingu. Það er fagnaðarefni að við skulum taka þá ábyrgð að gera það í sameiningu.

Mig langar aðeins að koma inn á sí- og endurmenntunina og það er tvíþætt. Ég tek undir það að við verðum að horfast í augu við að mögulega vanáætlum við þetta og þá verðum við að bregðast við því og annað slíkt og það þarf að ganga vel fyrir sig.

Mennta- og starfsþróunarsetrið þarf fyrst og fremst að finna út úr því hver þörfin er. Sérhæfð námskeið sem allir lögreglumenn þurfa að standa skil á, t.d. akstur með forgangi, handtökuæfingar og annað slíkt, það er þessi þjálfun og það er þetta sem allir lögreglumenn þurfa að fara í gegnum. Svo er það sí- og endurmenntunin þar sem lögreglumönnunum er gert kleift að styrkja sig í starfi og eiga þá möguleika á að fá frekari framgang innan lögreglunnar og undirbúa sig við að sækja um aðra stöðu. Gert er ráð fyrir því að lögreglumennirnir sjálfir komi að þeim kostnaði sem af því hlýst, enda hafa þeir í gegnum kjarasamninga og sitt landssamband í dag aðgang að starfsmenntunarsjóði og styrktarsjóði.

Það eru til tvær tegundir af sjóðum sem þeir hafa aðgang að, en gallinn við kerfið í dag er sá að lögreglustjórinn sendir lögreglumennina á þessi námskeið og borgar af því kostnaðinn. Þar af leiðandi fá lögreglumennirnir ekki að velja sjálfir hvort þeir fara á námskeið heldur eru þeir sendir af lögreglustjórunum. Þá er lögreglustjórinn þannig lagað búinn að velja fyrir fram hver er hæfur til að sækja um störfin. Það gengur ekki. Það er kannski stærsta réttarbótin fyrir lögreglumenn í þessari breytingu, þetta val sem þeir fá. Þeir eru með kerfi sem mun geta styrkt þá í það nám til að ná slíkri framþróun. Þannig er hugsunin í þessu. Þess vegna munum við fá miklu meiri endurmenntun og símenntun út úr þessu breytta kerfi.