145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[17:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er vissulega rétt og við þekkjum það að flest öll stéttarfélög bjóða upp á slíka sjóði til að styrkja sig í starfi. Það kom mér hins vegar á óvart sem hv. þingmaður sagði hér síðast, ég hafði ekki áttað mig á því að lögreglumenn gætu ekki valið nema að litlu leyti á hvers konar námskeið þeir færu. Það er auðvitað mjög bagalegt. Ég tek undir það að það er afskaplega gott að ná utan um eitthvað slíkt, það er kannski alltaf skynsamlegast að hver og einn geti styrkt sig í því sem hann telur sig vera góðan í og reynt að efla það á allan þann hátt sem viðkomandi starfsmaður getur.

Ég þarf svo sem ekkert að lengja þessa umræðu. Ég hef komið áhyggjum mínum af þessu máli hér á framfæri. Það er kannski þetta í restina að mennta- og starfsþróunarsetrið eigi að sannreyna hvort nemar uppfylli skilyrðin sem sett verða varðandi inntökuskilyrðin; þ.e. háskólinn á að setja inntökuskilyrði og síðan á mennta- og starfsþróunarsetrið að sannreyna hvort þeir uppfylli þau. Við erum alltaf að reyna að búa til tengingu en svo erum við að toga hana í sundur, þannig að eflaust á þetta nám allt eftir að slípast til, hvernig það verður. En ég vona sannarlega að þetta fari skynsamlega af stað en ekki með einhverjum hnökrum og ráðherra málaflokksins, menntamálaflokksins, sjái hag sinn í því að setja námið til ríkisrekins háskóla.