145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

nýjar upplýsingar um einkavæðingu bankanna.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, að það sem fram hefur komið, m.a. að frumkvæði umboðsmanns Alþingis sem hann fór með fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sé þess eðlis að þarna séu — þrátt fyrir að þetta mál sé kannski eitt af þeim sem mest eru rannsökuð í íslenskri stjórnsýslu, þ.e. einkavæðing bankanna eftir aldamótin — nýjar upplýsingar sem áhugavert gæti verið að varpa ljósi á, ekki síst í því samhengi, eins og hv. þingmaður kom inn á, að við stöndum frammi fyrir því að við eigum eftir að skilgreina fjármálamarkaðinn, hvernig við viljum sjá hann til framtíðar. Í því ljósi held ég að það sé gagnlegt, til að geta dregið lærdóm af, að skoða hvernig mál hafa æxlast á þeim tíma.

Við höfum staðið fyrir því í þinginu að þær rannsóknarnefndir sem áður hafa starfað hafa starfað eftir ramma sem hvorki hefur verið fjárhagslega né tímalega afmarkaður. Þess vegna er ánægjulegt að í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er líka verið að fjalla um ný lög um rannsóknarnefndir þannig að menn geti afmarkað betur þættina. Ég get ekki betur séð en að þarna sé um einhverja slíka afmörkun að ræða.

Samtímis er áhugavert að velta því fyrir sér, í ljósi þess að auðvitað hafa síðar farið fram einkavæðingar á bönkum, hvort ekki sé tilefni til og skynsamlegt, til að draga lærdóm af áður en við förum í að skilgreina fjármálamarkaðinn, að rannsaka hina svokölluðu síðari einkavæðingu, þ.e. það sem gerðist eftir hrun og afmarka það með sambærilegum hætti samkvæmt nýju rannsóknarlögunum og setja slíka rannsókn í gang. Ég held að það væri afar skynsamlegt en tek undir að það sé gott að fá þennan þátt upp á borðið.