145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

nýjar upplýsingar um einkavæðingu bankanna.

[10:37]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýstum áhuga hæstv. forsætisráðherra á málinu. Ég held að það sé bagalegt að mörgu leyti að Alþingi hefur ekki auðnast, á öllum þeim tíma sem liðinn er af þessu kjörtímabili, að verða við samþykkt um rannsóknarnefnd á einkavæðingu bankanna sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili. Það er vissulega fagnaðarefni þótt seint sé að ný lög um rannsóknarnefndir séu komin langt á veg í þinginu.

Mig langaði, bara til þess að það sé sagt, að nefna að það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur í þinginu og fyrir framkvæmdarvaldið að taka alvarlega ábendingar umboðsmanns Alþingis sem, eins og við öllum vitum, tók þátt í gerð skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á sínum tíma og þekkir málin mjög vel (Forseti hringir.) og hefur stigið hér fram og sagt að nýjar upplýsingar séu komnar fram sem breyti málinu frá því sem áður var vitað.