145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

nýjar upplýsingar um einkavæðingu bankanna.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt, eins og fram hefur komið, að þetta mál er nokkuð vel rannsakað. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, ef ég man rétt, er á tugum blaðsíðna, 70–71 blaðsíðu, einmitt skrifað um þennan þátt. Ef nýjar upplýsingar eru komnar fram þar er sjálfsagt mál að skoða það. Ég held að skynsamlegt sé að gera það undir því markmiði sem mér hefur skilist að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerir, á þeirri vegferð sem hún er, að skilgreina rannsóknina betur og skoða það eftir nýjum lögum. Á sama hátt varðandi það sem ég nefndi um einkavæðinguna hina síðari, þar liggur líka skýrsla í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, unnin af hv. þm. Brynjari Níelssyni, en í lokaorðum hennar er einmitt fjallað um að nauðsynlegt sé að rannsaka það mál frekar. Ég held að það væri skynsamlegt af þinginu, til þess að við getum staðið betur að breytingum á því fjármálaumhverfi sem við sjáum til framtíðar, að fá þessa hluti upp á borðið.