145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

Mývatn og Jökulsárlón.

[10:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar fyrirspurnir sem varða náttúruverndarsvæði landsins. Sem betur fer eigum við mörg slík en sum þeirra eru akkúrat innan sveitarfélaga sem hafa tiltölulega veika burði til þess að bregðast við aðstæðum. Við höfum rætt hér um Mývatn, eins og þingmaðurinn gat um, vatnið sjálft, þá auðlind sem og minjar í sveitarfélaginu sem slíku. Þetta tengist auðvitað saman, en fyrst og fremst hafa menn haft miklar áhyggjur af vatninu og það er ekkert nýtt. Þess vegna var sett sérstök rannsóknarstöð þar upp. Ég leyfði mér að varpa fram þeirri hugmynd og get endurtekið hana hér að nú hafa Hofstaðir komist í eigu ríkisins og hvort ekki væri snjallt að við gætum nýtt þá jörð. Hún er ein stærsta jörðin í hreppnum og hægt væri að nýta hana auðvitað fyrir bændur en jafnframt að geta sett þar upp nokkurs konar hreiður eða setur, þekkingarmiðstöð þar sem við getum eflt rannsóknir, bæði á vatninu sjálfu sem og umhverfinu. Þarna kæmu saman kannski einar fimm stofnanir ríkisins sem þegar eru staðsettar við Mývatn eða í nágrenni og huga að þessu svæði og líka undirstofnanir. Það eru minnst fimm stofnanir sem gætu verið þarna og þannig teldi ég að starfið gæti blómstrað.

Það hefur einnig verið rætt úr þessum ræðustól, sem þingmaðurinn gat um, um Jökulsárlón eða jörðina Fell. Það sáu eflaust flestir þingmenn að þetta var auglýst í blöðunum um helgina og ég vil fullvissa (Forseti hringir.) þingheim um að við fylgjumst vel með og getum svo á grundvelli náttúruverndarlaga eins og þingmaðurinn gat um gripið inn í ef til þess fæst tækifæri eða fjármagn.