145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

Mývatn og Jökulsárlón.

[10:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka innilega stuðning við það sem ég heyri frá hv. þingmanni, að hún mundi standa mjög með mér í þeirri kröfu að herja á fjármálaráðuneytið um að fá aukafjárveitingu eða hvað annað eða hvernig því yrði komið fyrir og fá fjármagn til styrktar Skútustaðahreppi, bæði hvað varðar fráveituframkvæmdir sem og aukið rannsóknastarf. Ég vil samt nefna að við settum strax nefnd í gang sem skilar núna innan 14 daga, sem er að taka saman helstu upplýsingar. Þetta er náttúrlega margrannsakað svæði, en kannski eins og oft áður er ekki alveg einhugur eða samhljómur um hvað ber að gera. Sveitarstjórnin er þar inni sem og heimamenn úr ýmsum áttum og ég vona að niðurstaðan verði sú að ákveðið verði að fara í gang með ákveðna hönnun þarna eða viðleitni til að taka enn frekar á málum.