145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

skil þjónustu ríkis og sveitarfélaga í heilbrigðismálum.

[10:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta þóttu mér ekki mjög skýr svör. Því spyr ég ráðherra: Hvað hefur hæstv. ráðherra gert í embættistíð sinni nákvæmlega til að eyða þessum gráu svæðum? Það var bara eitt dæmi sem ég tók hér. Ég heyri aftur á móti af svona dæmum daglega. Ég heyri daglega af því að skilin í þjónustukerfunum okkar um hvað eigi að vera á ábyrgð sveitarfélaga og hvað eigi að vera hjá ríkinu séu í algerum ólestri. Það er ekkert nýtt og það vissi hæstv. ráðherra að sjálfsögðu þegar hann tók við embætti. Það á við um heilbrigðiskerfið, þjónustukerfi fatlaðra. Það vita allir að stjórnsýslustigin vinna ekki nægilega vel saman.

Ég kalla eftir því að áður en ráðherra lætur af störfum sem hæstv. heilbrigðisráðherra komi fram mjög skýr aðgerðaáætlun sem allir skilja og líka sveitarfélögin, (Forseti hringir.) og að fólk í þessum ólíku embættiskerfum skilji sína ábyrgð. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að firra sig endalaust ábyrgð.