145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

[10:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það var í júní, held ég örugglega, fyrir tveimur árum sem samþykkt var mjög merk aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014–2016. Þetta er mjög metnaðarfull áætlun og ég spurði spurninga um hana og fékk fyrir fáeinum dögum svar frá hæstv. forsætisráðherra og þakka fyrir það. En þegar maður lítur á það virðist því miður vera sem áætlunin hafi ekki staðist eins og vonir okkar allra ábyggilega stóðu til. Ég velti fyrir mér hvort sömu spurningar hafi komið upp í huga hæstv. forsætisráðherra þegar hann las þetta og komu upp hjá mér. Til dæmis var stefnt að því að fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar yrðu 3% af vergri þjóðarframleiðslu 2016. En svarið gengur eiginlega út á að búið sé að skipta um reikniaðferð og þess vegna sé ekki hægt að bera þetta saman. Miðað við þær reikniaðferðir sem núna eru notaðar hjá Hagstofunni er hlutfallið um 1,89. Ég velti fyrir mér: Hvernig er búið að breyta þessu? Erum við þá á sama stað núna og erlendar þjóðir sem við berum okkur saman við? Veltir ráðherrann þessu fyrir sér? Það skiptir máli að setja einu sinni fram 3% og svo segja menn bara núna: Það er ekki 3% af því að núna eru notaðar einhverjar aðrar reikniaðferðir.

Annað sem mig langar líka að spyrja um og finnst skipta máli snýst um að það átti að ná sambærilegri fjármögnun í háskólum árið 2016 og er í OECD og árið 2020 eins og er á Norðurlöndunum. Svo kemur svarið, og þar er ekki talað um OECD, en sagt að stefnt verði að sömu fjármögnun árið 2020. Hvernig er samanburðurinn við OECD núna? (Forseti hringir.) Hefur hæstv. forsætisráðherra einhver svör við því?