145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að sú áætlun sem var samþykkt í júní 2014 var mjög metnaðarfull. Við höfum með samþykki Alþingis aukið fjármagn verulega til rannsóknasjóðanna með því markmiði að ná þessum 3% sem áður var miðað við. Eins og ég hef skilið málið er hlutfallið 1,89% betur sambærilegt við greiningar erlendis, og hafi ekki verið það áður en það sé sambærilegt markmið í sjálfu sér. Það þyrfti þá væntanlega að taka það til endurskoðunar. Það er fyrirhugaður fundur í Vísinda- og tækniráði á næstu vikum og verður örugglega tækifæri til að ræða það þar. Það er rétt að áætlunin var mjög metnaðarfull og þessi þáttur hennar hefur gengið mjög vel eftir, þ.e. aukafjármagn frá ríkinu, og á sama hátt hefur fjárfesting einnig aukist hjá fyrirtækjunum í landinu, þó að maður vildi alltaf sjá betri árangur, það var hluti af áætluninni að hvetja til þess.

Varðandi hina spurningu hv. þingmanns, um fjármögnun háskólakerfisins, er það rétt að í fjármálaáætluninni til næstu fimm ára er ekki skilgreint með skýrum hætti hvernig auka skuli annaðhvort fjármagn til háskólans eða í það minnsta að fjármagn á hvern nemanda hækki, í takt við OECD þar sem við erum komin rúmlega hálfa leiðina í átt að Norðurlöndunum ef ég man rétt, Norðurlöndin eru þar á toppi. Það er vegferð sem við eigum eftir að skoða nánar og þá minni ég á að í fjármálaáætluninni er auðvitað varasjóður sem safnast upp á hverju ári, (Forseti hringir.) verður 15 milljarðar árið 2021, byrjar í 7, (Forseti hringir.) þar sem er ekki búið að útfæra allar áætlanir og hvernig ríkið ætlar að koma til móts við þau markmið sem það hefur.