145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[11:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta nú ótrúlega stutt framsöguræða fyrir stórmál af þessu tagi. Hvar var röksemdafærslan um áhrif þessa samnings fyrir innlendan landbúnað, matvælaframleiðslu, samskiptin við Bændasamtökin og annað? Það hefði kannski verið ástæða til að framsögumaður málsins, þótt vissulega sé utanríkisráðherra ekki fagráðherrann, færi nú aðeins yfir málið og væntanlega hefði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið getað hjálpað utanríkisráðuneytinu með smá upplýsingar og röksemdir inn í ræðuna.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra um eitt tiltölulega afmarkað atriði þessa máls, það er spurningin um gagnkvæmni í samningi þegar 330 þúsund manna þjóð semur við 500 milljóna markað. Hvað finnst hæstv. utanríkisráðherra um þau sjónarmið sem maður hefur víða heyrt að það sé dálítið langt gengið að leggja það að jöfnu, tonn á móti tonni, eða jafnvel þannig að halli á Ísland, í ljósi þess hversu gríðarlegur stærðarmunur er á þeim aðilum sem hér eiga í samningum? Er eðlilegt t.d. í svínakjötinu að það sé bara opnað tonn á móti tonni, einhverjir mjög óvissir hugsanlegir útflutningsmöguleikar okkar á niðurfelldum tollum ESB? Annars staðar hallar beinlínis á okkur, í alifuglunum, og innflutningskvótar á nautakjöti er algerlega einhliða.

Auðvitað geta menn sagt að við fáum eitthvað á móti þar sem við fáum tollkvóta í skyri og lambakjöti sem ekki koma á móti hinum megin frá, en stærðarmunur markaðanna er þarna til staðar. Ég er mjög hugsi yfir því hvernig þetta mál gat endað í tölum og samskiptum af þessu tagi, ekki síst í þessu ljósi þar sem auðvitað blasir við að okkar viðkvæmi litli markaður er svo miklu næmari fyrir hlutum og stærðum af þessu tagi en 500 milljón manna markaður Evrópusambandsins þar sem þetta er svoleiðis innan skekkjumarka, þetta eru einhver prómill, áhrifin sjást varla með stækkunargleri sem hugsanlega gætu orðið á markað inn í Evrópu. (Forseti hringir.) En hjá okkur eru þetta verulega stór áhrif.