145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[11:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hægt er að kalla aðlögunartíma upp á tvö ár eða eitt ár, nokkur ár. Í svínakjötinu og alifuglunum gengur fyrri hlutinn í gildi á samningsárinu og restin árið eftir. Það er nú ekki mikill aðlögunartími, finnst mér. Í öðrum tilvikum er það teygt yfir fjögur ár.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um framsetningu í greinargerðinni þar sem nánast er látið að því liggja að bændur hafi beðið um þetta sjálfir, að svínabændur hafi jafnvel beðið um þetta sjálfir á árinu 2011. Það er alveg fáránleg söguskýring og ómakleg í ljósi þess að bændur lýstu óánægju með niðurstöðu samninganna árið 2007 þar sem var að þeirra mati mjög einhliða um hnútana búið. Þeirra hugsun var sú að ná fram leiðréttingu á þessu.

Hvar sér þess stað að svínabændur eða alifuglabændur hafi beðið sérstaklega um að Evrópusambandið fengi að flytja meira inn tollfrjálst, eins og nánast er látið að liggja í greinargerðinni? Ég gagnrýni það. Það er ekki boðlegt fyrir þá sem þekkja sæmilega til sögunnar að fá svona útvaskaða áróðurstexta frá einhverjum embættismönnum eða ráðherra sem eru að reyna að bjarga sér í land.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki ráðuneytið tilbúið til að gera bragarbót á því og a.m.k. senda þá ítarlegri rökstuðning og greinargerðir um aðdraganda málsins til viðkomandi þingnefnda, sem verða væntanlega tvær sem þurfa að fjalla um þetta?

Varðandi upphafsspurningu mína um hvað sé eðlilegt þegar svona gjörólíkir markaðir eigast við í samningaviðræðum þá saknaði ég þess aðeins að meira svar kæmi, nema það sé virkilega tilfinning ríkisstjórnarinnar að það megi bara algjörlega leggja ávinninga, áhættu eða tap að jöfnu í þessum samningum. Það finnst mér alveg stórmerkileg niðurstaða á (Forseti hringir.) okkar íslenska dvergmarkaði þegar útkoman er meira og minna tonn á móti tonni eða minna en það.