145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[11:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem úr nokkuð annarri átt að þessu en þingmaður í fyrra andsvari. (SJS: Það er nú gott.) Það er hollt og gott og á að einkenna þennan sal að hér séu mörg sjónarhorn á málin. Ég lít svo á að það muni einkenna veröldina á 21. öldinni að umframeftirspurn verði eftir heilbrigðum matvælum, góðum matvælum, minni hætta á offramleiðslu og að það eigi eftir að hafa áhrif á íslenskan landbúnað. Þótt við séum vissulega á jaðarsvæði framleiðum við mjög góð matvæli. Við framleiðum fisk án ríkisstuðnings og til útflutnings og mér finnst það jákvæða við búvörusamninginn, sem hefur mörg umdeilanleg ákvæði, og það jákvæða við málið sem við ræðum að við fetum okkur í átt að þessari veröld. Í þeirri veröld eru verndartollar fáránlegir, vegna þess að menn þurfa að getað komið vöru sinni á markað í veröld þar sem er umframeftirspurn eftir heilbrigðum matvælum. Ég mundi því vilja sjá og tel að í framtíðinni munum við sjá frekari skref í átt að afnámi tolla og að tollfrjálsum viðskiptum milli landa.

Það sem vekur athygli mína í þessu máli öllu saman er að ég hef heyrt og fengið það staðfest, m.a. frá fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að bændur hafi boðið í þessum samningum algjörlega tollfrjáls viðskipti með lambakjöt á milli ESB og Íslands, að allir tollar yrðu felldir niður, en ESB hafi ekki samþykkt það. Það finnst mér athyglisvert vegna þess að mér þykir þá vera ljóst að með því er önnur röksemdin fyrir því að ganga ekki í ESB fallin. Það hafa einkum verið nefndar tvær röksemdir fyrir því að ganga ekki í ESB, ég veit að þetta er stórt mál, annars vegar hagsmunir sjávarútvegsins og hins vegar hagsmunir landbúnaðarins. Ef (Gripið fram í.)bændur og yfirvöld á Íslandi eru farin að sjá það sem ákjósanlegan möguleika í náinni framtíð (Forseti hringir.) að eiga í tollfrjálsum viðskiptum við ESB með landbúnaðarvörur er þá ekki alla vega (Forseti hringir.) landbúnaðarröksemdin fyrir því að ganga ekki í ESB fallin? Mér þætti fróðlegt að heyra svar hæstv. utanríkisráðherra við þeirri spurningu.