145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[11:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki að biðja um umræðu um kosti og galla ESB-aðildar í breiðu samhengi heldur aðeins að segja að hingað til hefur verið sagt að vernda þurfi íslenskan landbúnað með mjög háum tollum og tollamúrum gegn innflutningi frá ESB. Mér finnst tíðindin í þeim samningi sem er til umræðu og í búvörusamningunum vera þau að það eru alla vega einhverjir í landbúnaðargeiranum og yfirvöld í landbúnaðarmálum á Ísland og margir bændur farnir að átta sig á því að tækifæri íslensks landbúnaðar liggja í tollfrjálsum viðskiptum við Evrópusambandsríkin, vegna þess að það er eftirspurn eftir íslenskum matvælum. Mér finnst það jákvætt vegna þess m.a. að við getum líka notið þess frelsis okkar megin með innflutningi á matvælum og eins getum við byggt upp blómlegan landbúnað sem þarf ekki þá ríkisstyrki sem við ausum í hann núna úr opinberum sjóðum. Mér finnst það jákvætt og þetta eru tækifæri sem ég sé í þessu. Ég er ekki að biðja um kosti og galla ESB-aðildar í víðu samhengi heldur aðeins að segja að mér finnst augljóst að sá þáttur röksemdanna gegn því að ganga í ESB, sem er m.a. þetta tollabandalag, að vernda þurfi innlendan landbúnað er fallinn, vegna þess að við höfum dæmi um það í hinum veigamesta þætti í íslenskri landbúnaðarframleiðslu, sem varðar lambakjötið, að bændur hafi farið fram á tollfrjáls viðskipti algjörlega við ESB, farið fram á það að tollar yrði felldir niður, enda er samkeppnin í lambakjöti ekki svo mikil við Evrópuríkin, en því hafi verið hafnað af Evrópusambandinu. Þá er augljóst næsta skref fyrir bændur, sama hvað segja má um aðra þætti málsins, að berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu og njóta þar með tollfrjálsra viðskipta.