145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[12:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína á að óska eftir því að þetta mál komi til umsagnar okkar í atvinnuveganefnd því að eins og hér hefur komið fram fléttast þessi tvö mál óneitanlega saman, sá búvörusamningur sem liggur fyrir og tollasamningurinn við Evrópusambandið. Eins og komið hefur fram hefur hann ekki verið unninn í neinu samráði við bændur, aðra hagsmunaaðila, neytendur eða aðra flokka en þá flokka sem sitja í ríkisstjórn núna. Ef þessi tollasamningur gengur eftir hefur hann gífurleg áhrif á starfsumhverfi landbúnaðar í heild á Íslandi, ekki bara þeirra bænda sem eru að framleiða hvítt kjöt heldur alla kjötframleiðslu í landinu og vinnslu afurða þegar menn ætla sér að opna svona gífurlega mikið á kjötinnflutning til landsins.

Þarna er ekkert smámagn á ferðinni. Í svínakjöti er núverandi kvóti 200 tonn og fer upp í 700 tonn á þessu tímabili, á fjórum árum, og í alifuglakjöti er kvótinn í dag sem má flytja inn 200 tonn en fer upp í 856 tonn, svo eitthvert magn sé nefnt í þessu efni. Við það bætast unnar kjötvörur, magnið þar eykst úr 50 tonnum upp í 400 tonn, og pylsumagnið fer úr 50 tonnum í 250 tonn. Þetta er gífurleg aukning og ekkert skrýtið að svínabændur og kjúklingabændur hafi lýst miklum áhyggjum af því hvað þessi samningur muni gera fyrir afkomu þessara greina og hvort menn hrökklist ekki út úr þeim. Það er erfiðara að reisa aftur við matvælaframleiðslu í þessum greinum eftir einhvern tíma ef aðstæður verða þannig að það sé ýtt undir að slík framleiðsla yrði frekar innan lands en að auka svona mikið á innflutning til landsins.

Mér finnst þessi umræða oft mjög sérstök. Það er alltaf tengt saman að með miklum innflutningi sé sjálfgefið að verð til neytenda muni lækka. Við þekkjum það varðandi afnám vörugjalda og tolla á ýmsan varning að lækkunin hefur langt í frá skilað sér til neytenda. Í dag er mikið magn af landbúnaðarvörum og hvítu kjöti flutt til landsins. Það hefur komið fram í umræðunni að eins og varðandi svínakjötið eru menn að nýta tollkvótana til að flytja inn dýrustu hluta þess eins og lundir og aðra beinlausa vöru, en síðan kemur skortur á vöru eins og svínasíðum, það sem beikonið er framleitt úr, og þá kemur það til viðbótar og er bara frjáls innflutningur eins og verið hefur frá maí til september. Í lok september birgja menn sig upp fyrir næstu mánuði svo það er verið að flytja inn miklu meira magn en menn gera sér grein fyrir.

Það veldur ójafnvægi í samkeppni þegar þessi innflutningur á svínakjöti kemur inn og menn geta undirboðið það við framleiðsluna hér á landi sem veldur því líka að innlendir framleiðendur eiga erfitt með að keppa við þær aðstæður. Núna eru aðstæður þannig, t.d. í Danmörku, Spáni, Ítalíu og fleiri löndum þar sem svínakjöt er framleitt, að það er viðskiptabann hjá Rússum gagnvart innflutningi frá Evrópu á svínakjöti og verðið er þess vegna á þessum stöðum í Evrópu mjög lágt. Það er verið að koma með þennan varning núna vegna þess að það eru miklir erfiðleikar hjá svínabændum í mörgum löndum í Evrópu vegna þess að þeir geta ekki komið sínum varningi á markað í Rússlandi og þá hefur þetta þessi áhrif líka inn á markaðinn hérna. Þarna eru á ferðinni mjög erfiðar samkeppnisaðstæður og öll virðiskeðjan kemst líka í uppnám vítt og breitt um landið. Úrvinnsla kjötafurða í landbúnaðargeiranum skapar miklu fleiri störf en fólk gerir sér grein fyrir.

Ef þessi tollasamningur gengur fram óbreyttur mun það valda mikilli byggðaröskun í landinu. Þetta mun ekki bara bitna á þeim bændum sem þarna eiga í hlut og standa ekki undir þeim mikla innflutningi sem kemur inn á markað og þola ekki þá miklu samkeppni sem þarna verður heldur hefur þetta áhrif á svo margt annað sem fylgir þessari atvinnustarfsemi í hliðargreinum í landbúnaðargeiranum. Ég held að menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skera í raun og veru upp herör gagnvart byggð í landinu sem er verið að gera með þessum samningi. Það er verið að ógna byggð um landið og það er með ólíkindum að þetta eigi að fara sisona í gegn án þess að afleiðingar af þessum samningi verði skoðaðar ofan í kjölinn.

Það hefur líka komið fram að heilbrigði íslenskrar framleiðslu, svo ég taki sérstaklega út fyrir sviga svínarækt og alifuglarækt, er með allt öðrum hætti en víða í Evrópu. Við erum þar mjög framarlega og ættum auðvitað að njóta þess líka þegar horft er á verð, samkeppni og aukinn innflutning.

Í atvinnuveganefnd í morgun þar sem búvörusamningurinn var ræddur var líka rædd könnun á gæðum í ferskum kjúklingi í kjötborði í Bretlandi. Af þeim prufum sem voru teknar þar komu í ljós að 70% af ferskum kjúklingi voru sýkt af kampýlóbakter og salmonellu. Við höfum ekki staðið frammi fyrir þessum mikla vanda, heldur hafa verið mjög hertar reglur varðandi allt eftirlit og úttekt á þessu áður en kjúklingnum eða svíninu er slátrað. Það eru miklu harðari kröfur varðandi heilbrigði afurða á Íslandi sem ætti auðvitað að horfa til líka og er mjög ósanngjarnt þegar síðan er sturtað inn í landið afurðum sem ekki er nægt eftirlit með varðandi sýklalyfjanotkun og hvort varan sé full af kampýlóbakter eða salmonellu.

Við vinstri græn viljum verja sem mest og best íslenska landbúnaðarframleiðslu og teljum að með þeim tollasamningi sem hér liggur fyrir sé verið að ógna landbúnaðarframleiðslu í landinu, og ekki bara henni heldur líka ótal atvinnugreinum sem starfa til hliðar við frumframleiðslu í landbúnaði. Við eigum að standa vörð um okkar góðu framleiðslu. Það eru líka umhverfisleg sjónarmið sem rökstyðja það, því fylgir mikil mengun að flytja hingað landbúnaðarafurðir um langan veg, hvort sem um er að ræða kjöt, osta eða annað, þegar við getum framleitt þetta hér heima og gæðin (Forseti hringir.) standast fullkomlega samanburð og verð líka, vil ég meina.