145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[12:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvenær sá einsleiti hópur, sem eru ungir karlkyns lögfræðingar, frjálshyggjusinnaðir og kenndir við stuttbuxur — ég uppfylli nokkur af þessum skilyrðum, þá sérstaklega stuttbuxurnar, því að ég spilaði nú með Ungmennafélaginu Skallagrími lengi, bæði í yngri flokkum og meistaraflokki. Ég held hins vegar að þetta sé ekki rétti vettvangurinn til að fara yfir þann feril, en ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mun ganga hart að mér þá þarf ég, eðli máls samkvæmt, að upplýsa hann og hv. þingmenn um það. (Gripið fram í.)

Svo við förum efnislega í málið þá geri ég nú ráð fyrir því að það sé góður þingmeirihluti fyrir þessum málum. Ég er fylgjandi prinsippinu. Ég vil að við gerum fríverslunarsamninga um landbúnaðarvörur eins og aðrar vörur. Ég legg hins vegar áherslu á að við þurfum að setja einhverjar línur um hvernig við ætlum að standa að útboði á þessum kvótum. Það er það sem ég hef verið að leggja til þegar kemur að þessu máli. Það tengist svo mörgu. Ferðaþjónustan er með nærri því jafn miklar gjaldeyristekjur og sjávarútvegurinn og áliðnaðurinn til samans. Það er bara þetta stórkostlega einkaframtak sem hefur gert það að verkum að fólk er komið með frábæra veitingastaði og ferðaþjónustan og annað slíkt. Eitt er það að við þurfum meiri mat. Þó að ég vildi gjarnan að útlendingar borðuðu eins mikinn íslenskan mat og hægt er þá er hann nú betri þegar við blöndum honum saman við ýmislegt annað, eins og t.d. osta. Það er auðvitað ekki hægt að bjóða mönnum upp á verðlagninguna á innfluttum vörum eins og hún hefur verið fram til þessa. Þess vegna legg ég áherslu á að við þurfum að ræða það í þessu samhengi. Andsvarið er of stutt til þess að ræða athugasemdir við búvörusamninginn, en glaður skal ég fara yfir þau sjónarmið hér.