145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég sé að þetta mál vekur gríðarmikla athygli hv. þingmanna, en ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga þessa umræðu um framtíðarsýn á skattkerfið sem við eigum kannski ekki mjög oft í þessum sal. Við erum yfirleitt að ræða breytingar á gildandi skattkerfi og oft hreinlega aðlaganir þar sem verið er að færa prósentutölur upp eða niður.

Það sem mig langaði að ræða hér í dag var hvort ekki væri þörf á að endurskoða skattkerfið út frá stærri og breiðari sjónarmiðum í takt við samfélagsbreytingar, bæði skattstofnana og svo samspil skattkerfis og bótakerfis. Þetta er auðvitað sígilt umræðuefni. Þó að stundum sé tilhneiging til að láta eins og skattkerfið sé fyrst og fremst tæknilegt viðfangsefni er það í raun bæði mjög pólitískt og heimspekilegt viðfangsefni því að það felur í sér ákveðinn grunn samfélagsgerðarinnar.

Meginhlutverk skattkerfisins er ekki aðeins að tryggja tekjur til að standa undir samneyslu eða grunnþjónustu sem er svo skilgreind með mismunandi hætti eftir því hvers konar stjórnvöld eru við völd á hverjum tíma, lykilatriðið er að grunnþjónustan tryggi farsæld borgaranna. En skattkerfið hefur líka önnur hlutverk, t.d. að þjóna ákveðnum efnahagslegum markmiðum. Margir, þeirra á meðal ég, telja að tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins sé mjög mikilvægt, þ.e. að með ólíkum þrepum sé tryggt að hinir tekju- og efnameiri leggi hlutfallslega meira af mörkum en þeir sem hafa minna milli handa. Angi af þeirri umræðu er líka hvernig skattkerfið er nýtt til að stýra verðlagningu á tilteknum vörum. Við getum rifjað upp umræðu um virðisaukaskatt á matvæli. Síðast en ekki síst má segja að breyttir tímar kalli á nýtt hlutverk skattkerfisins, sem er gagnsæi. Af hverju? Jú, af því með frjálsu flæði fólks og fjármagns um heiminn eru skattstofnarnir ekki lengur staðbundnir, uppbygging fjármálakerfisins hefur skapað möguleika, eins og við höfum rætt hér áður, á óteljandi felustöðum fyrir fjármagn, sem gerir að verkum að þeir hefðbundnu skattstofnar sem við höfum komið á, komum í raun og veru á þegar samfélagið var nútímavætt, endurspegla kannski ekki samfélagið í dag. Það er umhugsunarefni hvernig skattkerfið á þá að endurspegla sem best þetta gagnsæi eða tryggja það sem best.

Ég held að það sé mikilvægt að við veltum upp ákveðnum grunnspurningum, veltum því upp í ljósi þess að hluti borgaranna fær megnið af tekjum sínum með hefðbundnum hætti í gegnum laun, en aðrir fá megnið af sínum tekjum af fjármagni. Eigi að síður er skattlagningin á fjármagnstekjum og venjulegum tekjum gerólík. Væri ekki eðlilegra að tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur fylgdu sömu lögmálum með frítekjumarki, síðan væri skattlagningunni þrepaskipt þannig að fólki væri ekki mismunað eftir því hvaðan það tekur sínar tekjur? Þegar svo er rætt um jöfnuð, ef við erum sammála um það að skattkerfið hafi ákveðnu tekjujöfnunarhlutverki að gegna, þá er ekki nóg að horfa bara á tekjujöfnuðinn sem er m.a. mældur með Gini-stuðlinum, því að það segir bara hálfa söguna. Misskipting auðs er ekki síður alvarlegt mál. Við þekkjum öll þessar tölur. Ríkasta eina prósentið í heiminum á meira en hin 99 prósentin. Auðævi þeirra hafa aukist langt umfram hagvöxt í heiminum. Á Íslandi eru það ríkustu 10 prósentin sem eiga næstum 3/4 allra auðæfa.

Mig langar að spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra til auðlegðarskatts sem má ræða við hvaða mörk ætti að vera, hvort hann sé ekki í raun nauðsynleg jöfnunaraðgerð í ljósi þessarar miklu misskiptingar sem er ekkert séríslenskt vandamál heldur alþjóðlegt.

Það má líka spyrja um tryggingagjaldið sem hæstv. ráðherra hefur lagt til að verði lækkað og hefur verið þverpólitískt áherslumál. Þá er spurt, þegar lögð er til lækkun, hvort það ógni ekki þeim verkefnum sem tryggingagjaldið á að standa undir, t.d. atvinnuleysistryggingum og fæðingarorlofi. Þarf þá ekki að hugsa nýjar leiðir til að fjármagna þau verkefni? Endurspeglar tryggingagjaldið og fyrirkomulag þess samfélag dagsins í dag? Ætti kannski bara að hætta með tryggingagjald og fara aðrar leiðir til að fjármagna þessi samfélagslega mikilvægu verkefni? Ég spyr af því það er mikilvægt að skoða sérstaklega samspil skattkerfis og bótakerfis.

Að lokum vil ég nefna nauðsyn þess að þjóðir heims eigi aukna samvinnu um skattamál, því að við höfum í alþjóðasamstarfi ekki fylgt þeirri staðreynd sem hefur orðið með hnattvæðingunni, þ.e. að fjármagn og fólk — sérstaklega fjármagn, því það er frekar að fólk sé heft af landamærum en fjármagn, eins og við þekkjum því miður. 10 til 15 Evrópuríki hafa nú sammælst um að taka upp skatt á fjármagnsflutninga milli landa. Þessi nýi skattur var meðal annars til umræðu á loftslagsráðstefnunni í París, því að þó hann sér mjög lágur í prósentum getur hann skilað mjög miklum tekjum. Það sem þar var rætt um var að sá skattur mundi skila sér í verkefni sem þörf er á að unnin séu alþjóðlega eins og til dæmis í baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Það er alþjóðlegt vandamál og það þarf alþjóðleg tæki til að eiga við það.

Ég velti fyrir mér sýn hæstv. ráðherra á framtíðarhlutverk skattkerfisins og hvað hann telur um þau atriði sem ég hef nefnt hér, hvort ekki sé þörf á að horfa (Forseti hringir.) á þessi mál út frá því breytta samfélagi sem við búum í en ekki bara út frá verkefnum dagsins í dag.