145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er óhætt að segja að þetta sé mikilvæg umræða en það er líka óhætt að segja að hún sé stór og viðamikil og tvær mínútur munu engan veginn nægja til að koma öllu því á framfæri sem maður vill. Það er því best að vinda sér beint í grundvallaratriðin.

Í mínum huga blasir sú framtíðarsýn við að við getum og ættum að þróa skattkerfið í þá átt að fá meira inn af notkun auðlinda í umhverfissköttum og gjöldum af notkun á takmörkuðum auðlindum. Mér finnst það blasa við fyrir þetta þjóðfélag að þar liggja tekjumöguleikar okkar til þess að geta minnkað áhersluna á að skattleggja einstaklinga og fyrirtæki. Ég held að þetta sé eitthvað sem við ættum að stefna að.

Við eigum að mínu mati að líta svo á að skattkerfið sé til tekjuöflunar og líka til tekjujöfnunar. Persónuafsláttur er augljóst dæmi um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. Mér finnst að við eigum að stefna að einföldun. Ég varð fyrir vonbrigðum með þau skref sem voru stigin í einföldun virðisaukaskattskerfisins. Mér finnst að það eigi að vera einfalt og gagnsætt og minna til tekjujöfnunar en tekjuskattskerfið. Líka það hvernig farið hefur verið með tryggingagjaldið á undanförnum árum. Mér finnst það hafa aukið flækjustig og ógagnsæi í skattkerfinu hvernig sá tekjustofn, sem á að vera notaður til þess að fjármagna ákveðin fyrir fram skilgreind verkefni í samstarfi atvinnulífs og ríkis og sveitarfélaga, hefur í raun og veru verið misnotaður og tekjur teknar inn í ríkisreksturinn þar bakdyramegin. Þetta er ósjálfbært. Hvað ætlum við að gera næst þegar atvinnuleysi rýkur upp? Ætlum við þá að hækka tryggingagjaldið? Það gengur ekki.

Svo þarf að huga að skiptingu tekna ríkis og sveitarfélaga. Hjá sveitarfélögunum eru mjög mikilvægir þjónustupóstar og þeir eru vanfjármagnaðir. Að því þarf að huga.