145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda þessa umræðu því að þetta er alltaf kvik umræða, að ræða samspil skatta og reksturs samfélagsins. Þegar upp er staðið snýst þetta um það í hvernig samfélagi við viljum búa sem þjóð. Viljum við búa í bótadrifnu samfélagi eða viljum við búa í atvinnudrifnu samfélagi? Um það snýst umræðan að mestu leyti.

Hún vill líka snúast um það að þeir sem hafa komið sér áfram í lífinu og hafa trausta vinnu eigi að bera meiri byrðar í því að hjálpa þeim sem minna hafa á milli handanna. Get ég alveg tekið undir það en þó upp að vissu marki því að á ákveðnum tímapunkti gerist það að skattar í samfélagi verða of háir og þá fer skattkerfið að vinna á móti samfélaginu öllu. Þá eru orðnir svo miklir hvatar í samfélaginu til að svíkja undan skatti og stunda skattundanskot. Þetta jafnvægi verður því alltaf að vera til staðar. Sá dans að ákvarða skattprósentu er alltaf ákveðin kúnst.

Ég tel að vel hafi tekist til hjá þessari ríkisstjórn. Ég styð því af heilum hug þær tillögur að fækka skattþrepum í tvö. Þetta er allt saman til bóta.

Í framhjáhlaupi langar mig að minnast á að við, líklega ein örfárra þjóða, komumst upp með að skattleggja sérstaklega einungis eina atvinnugrein í landinu, sem er sjávarútvegur. Það er mjög sérstakt að við komumst upp með það en það er samfélagssáttmáli sem er órjúfanlegur og samþykki bæði stjórnvalda og atvinnugreinarinnar að svo sé. Þessi atvinnuvegur fær ríkisstyrki (Forseti hringir.) t.d. í Noregi. Ég tel að skattkerfið sé í miklu jafnvægi eins og það er og ég fagna því að verið sé að einfalda það. Það er öllum til bóta og forðar mjög skattundanskotum.