145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Við ættum í raun og veru að ræða um þessi mál á öðrum vettvangi en í tveggja mínútna ræðum á þinginu. Auðvitað er mikilvægt að opna umræðuna af og til en um akkúrat svona mál þarf að eiga umræðu með langtímahugsun sem t.d. framtíðarnefnd Alþingis gæti verið vettvangur fyrir, ef við berum gæfu til að stofna þá nefnd einhvern tímann.

Mig langar að nota tækifærið og skora á hæstv. fjármálaráðherra og alla þingmenn sem láta sig samfélag okkar varða að finna fé, sem er svo sannarlega til, til þess að við getum verið með gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi. Mér finnst þetta vera forgangsmál, forgangsmál okkar allra sem eigum að gæta hagsmuna almennings. Það hefur ítrekað komið fram að almenningur vill láta forgangsraða fjármunum í heilbrigðiskerfið. Ef það vantar peninga í það er t.d. hægt að fara þýsku leiðina varðandi þunna fjármögnun, þannig er hægt að finna 4 milljarða árlega. Við getum sleppt því að selja Landsbankann og þá mundum við fá 10 milljarða árlega. Þá erum við komin langleiðina í að borga fyrir gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi. Ef við setjum aflann á uppboð ættum við að geta náð í kringum 30–40 milljörðum á ári. Síðan er það þannig að sveitarfélögin eru mörg hver í miklum rekstrarerfiðleikum. Ef þeim væru gefnar heimildir til að setja á gistináttagjald gætu þau notið aukinnar ferðamennsku í landinu. Svo væri hægt að setja á smágjald, komugjald til landsins og þá værum við heldur betur komin í góð mál til þess að geta reka velferðarkerfi sem við getum verið stolt af og það velferðarkerfi sem Íslendingar vilja búa í.