145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Eins og hér hefur komið fram er þetta mikil grundvallarumræða en mig langar að nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi langar mig að nefna fyrirbæri sem er að jafnaði kallað grænn skattur, þ.e. skattur sem greiddur er af neytendum fyrir vörur eða þjónustu sem ekki eru í þágu sjálfbærni, umhverfis eða náttúru. Þessir grænu skattar eru hugsaðir til þess að vega upp á móti neikvæðum umhverfisáhrifum. Gott dæmi um slíka ráðstöfun er loftslagssjóður fyrir grænan vöxt sem er hugsaður í þágu grænna verkefna, til að byggja upp græna þróun í samfélaginu. Grænir skattar eru hugsaðir þannig að þeir séu að verulegu leyti eyrnamerktir slíkum verkefnum til að færa hagvöxtinn í áttina að grænni þróun. Það er afar mikilvæg hugsun í þessu samhengi.

Þarna má líka taka undir umræðuna um viðskiptakerfi með losunarheimildir, sem er tilraun eða verkefni sem stendur yfir í Evrópu og víðar, sem er leið til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum það kerfi. En margir hafa bent á að þar kunni betri máti að vera sá að beita skattkerfinu.

Mig langar líka til að nefna tekjustofna sveitarfélaga. Hér hafa þeir aðeins verið nefndir, sem er augljóst að þarf að breikka á Íslandi til að sveitarfélögin geti sinnt sínum lögbundnu verkefnum af meiri myndugleik en nú er. Það er augljóst að það er einhver skekkja í því að sveitarfélögin safni skuldum meðan ríkið greiðir niður sínar. Það er einhver villa í þeirri samsetningu.

Loks vil ég nefna að það má stórhækka persónuafslátt til kjarajöfnunar og til þess að vinna gegn fátækt þeirra hópa sem minnsta hafa innkomuna í landinu. Það gæti verið liður í áætlun íslensks samfélags (Forseti hringir.) í því skyni að útrýma fátækt.