145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því svo sem að þessi mál séu rædd. Það skiptir auðvitað miklu máli hvernig við högum skattlagningu.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra um að við verðum að huga að því hvaða áhrif skattlagning hefur á hverjum tíma, hvaða áhrif hún hefur á viðskiptalífið og þar af leiðandi tekjur samfélagsins af sköttunum. Ég heyrði hv. þm. Birgittu Jónsdóttur segja: Hér er hægt að taka hærri veiðigjöld, það er hægt að setja allan afla á markað og ná þar í tekjur. Það er auðvitað ekki svona einfalt. Hvaða áhrif hefur það á atvinnuveginn ef við gerum það? Lamar það atvinnuveginn? Þá eru engar skatttekjur af því. Við getum ekki talað um þetta með þessum hætti, það er fullkomlega ábyrgðarlaust, eins og það sé alltaf þannig: Það eru peningar einhvers staðar, við bara sækjum þá.

Ég er þeirrar skoðunar almennt að ég vil hafa sem mest hjá þeim sem afla teknanna. Við rekum nú ríkissjóð með tekjuafgangi. Af hverju eigum við þá að vera að hækka skatta? Borgar það sig? Það kunna að vera einhver efnahagsleg rök fyrir því undir vissum kringumstæðum. Þá skoðum við það. En að taka alltaf meira til sín án þess að hugsa hvaða afleiðingar það hafi getur verið mjög hættulegt fyrir íslenskt samfélag.

Mér finnst umræðan hafa gjarnan verið eins og að potturinn sé bara alltaf föst stærð, það sé bara spurning hvað við tökum mikið úr honum og að ekkert muni breytast. Það er auðvitað ekki þannig. Umræðan er góð. Við þurfum að velta fyrir okkur: Eru jaðarskattarnir orðnir of miklir? (Forseti hringir.) Er eðlilegt að hafa hærra hlutfall á tekjuhærri? Hvar eiga mörkin að vera o.s.frv.? Tökum þá umræðu.