145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:28]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég fagna alltaf umræðu sem er breið og á heimspekilegum nótum, en tveggja mínútna ræður bjóða ekki upp á djúpa greiningu þannig að ég hvet okkur sem tökum þátt í umræðunni til að leigja okkur einhvern tímann sal úti í bæ og ræða þetta í betra tómi.

Ég held að það sé mikil umræða um skattamál innan stjórnmálaflokka þar sem við tölum um skattamál hvert við annað, en á milli flokkanna er oft skortur á þeim samræðum.

Mér finnst mikilvægt að horfa á það að skattar eru í grunninn tekjuöflun fyrir opinbera þjónustu og opinber verkefni. Ég held að það ríki almennt breið samstaða um það grunneðli. Það er mikilvægt að skattkerfi sé þannig statt að það standi undir þeirri grunnþjónustu sem við viljum hafa. Það er ánægjulegt að ríkissjóður sé rekinn réttum megin við núllið, en á sama tíma vitum við að við erum ekki að byggja upp í fjárfestingum í velferðarkerfinu eftir mjög mögur ár. Við erum komin nálægt því að vera að éta mjólkurkúna í því samhengi.

Síðan langar mig að nota síðustu 41 sekúnduna mína til að minnast á eina tölu, þá 80 milljarða sem ríkisskattstjóri, ef ég man rétt, hefur sagt að séu líklega þær tekjur sem ríkið fer á mis við vegna skattsvika. Ég spyr mig hvort hluti af ástæðunni fyrir því sé hvað kerfið okkar er rosalega flókið, hversu margar mismunandi gerðir eru af skattheimtu eftir því hvort um er að ræða launaskatta, fjármagnstekjuskatta, fyrirtækjaskatta o.s.frv. Mér finnst stundum á þinginu að mesta umræðan um skatta sé að bæta göt í skattkerfinu. Hverjir hagnast á því að (Forseti hringir.) kerfi séu mjög flókin þannig að þeir geta fundið leiðir fram hjá þeim? Það eru auðvitað þeir sem mest hafa og hafa flest tækifæri til að kaupa sér sérfræðinga til þess arna.