145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

framtíðarsýn í skattkerfum og samfélagslegt hlutverk skatta.

[14:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem margir hv. þingmenn telja mikilvæga, en um leið ekki nægan tíma til að taka. Það er þá kannski ástæða til að gefa sér tíma í það síðar. Það má greina að við erum sammála um að skattkerfið skipti máli sem tekjujöflunartæki fyrir samneyslu. Við erum kannski ekki sammála um hversu mikil sú samneysla eigi að vera eftir því sem mér heyrist. Hvað varðar tekjujöfnunarhlutverkið þá erum við kannski heldur ekki sammála um hversu mikið það eigi að vera. Hvað varðar gagnsæið þá hafa kannski ekkert margir rætt það, en ég held að það sé eitt af lykilhlutverkum skattkerfis í samtímanum af því að við erum bara að horfa á allt aðra stofna en við vorum að horfa á þegar skattkerfinu var komið á.

Við byggjum skattkerfið okkar á ákveðnum sögulegum staðreyndum sem hafa breyst mjög mikið, þ.e. hvernig fólk fær tekjur sínar í samtímanum sem er með öðrum hætti en var fyrir 50 árum, 40 árum, 30 árum, hreinlega af því fjármagnsflutningar hafa breyst. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessar stóru línur. Erum við reiðubúin, Íslendingar, í samstarf á borð við það sem Evrópuþjóðir eru að fara í um skattlagningu á fjármagnsflutninga? Erum við búin að móta okkur stefnu í því hvernig við ætlum til dæmis að eiga við loftslagsbreytingarnar og hvaða skattstofna við ætlum að nýta í það? Erum við reiðubúin í alþjóðlegt samstarf um það? Ég segi já. Ég segi já, við eigum að vera reiðubúin í það.

Ég held að við þurfum að takast á við stóru viðfangsefnin, hvort við teljum ásættanlega þá misskiptingu auðs sem er staðreynd í okkar samfélagi eins og í öðrum vestrænum samfélögum; það þýðir ekki bara að horfa á tekjurnar í þeim efnum, við verðum líka að horfa á auðinn. Erum við sátt við þá misskiptingu sem við sjáum á auðæfum í samfélaginu? Viljum við að skattkerfið taki á því með einhverjum hætti? Ég segi já við því líka.

Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem nefnt hafa hlutverk sveitarfélaganna. Það er staðreynd að samfélag okkar hefur breyst og verkefni sveitarfélaganna hafa orðið æ þyngri og mikilvægari fyrir venjulegt fólk í landinu; nú síðast ferðaþjónustan þar sem sveitarfélögin biðja um einhvers konar lausnir til að þau geti tekist á við hlutverk sitt. Þetta er líka eitt af stóru verkefnunum fram undan, frú forseti.

Annars vil ég þakka fyrir góða umræðu. Ég vonast til þess að við fáum betri tíma síðar meir til að fara yfir þessar stóru pólitísku línur.