145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[14:59]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir orð málshefjanda um að flækjustigið sé ansi mikið í þessum geira. Það er ekki rétt stefna að stýra fólki í átt að dísilbílum. Það sem við eigum að gera, það sem okkur hefur mistekist að einhverju leyti, er að beina fólki í að kaupa umhverfisvæna bíla eða nýorkubíla, ef við viljum kalla það svo. Okkur gengur mjög hægt hvað það varðar og það eru mikil vonbrigði að sjá að ráðherrar ganga ekki fram með góðu fordæmi í opinberum innkaupum. Mér finnst það ámælisvert vegna þess að í fjármálaáætlun sem nýverið var lögð hér fram kemur fram það markmið að árið 2020 sé hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum 10%. Þá þurfum við að fara að spýta í lófana.

Ég hef ekki sömu áhyggjur og málshefjandi af þessari 5%-reglu um íblöndun lífdísilolíu í eldsneyti. Það hafa orðið breytingar þarna á. Það er farið að gera miklu meiri kröfur um það hvaðan þessi lífdísill kemur. Það eru sjálfbærniviðmið sem taka þarf tillit til og þar fram eftir götunum. Við skulum ekki gleyma því að þegar við erum að tala um þessi 5%, sem við höfum samt sem áður áhyggjur af, þá standa eftir 95% af jarðefnaeldsneyti. Við setjum ekkert spurningarmerki við það hvar olíuhreinsistöðin er, þar er engin sjálfbærnimæling, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) það er bara gæðaviðmið hvað það varðar.

Mig langar líka að benda öllum þeim sem er illa við að borga skatta á að kaupa rafbíla. Þá sleppa menn við toll, bensíngjald, sérstakt bensíngjald, kolefnisskatt og borga lægri bifreiðagjöld. Ég skil ekki af hverju allir sjálfstæðismenn keyra ekki um á rafbílum.