145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[15:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að viss þörf er og hefur verið á heildarendurskoðun skattlagningar á umferð en þó miklu frekar á heildstæða framtíðarstefnumörkun. Nú er það svo að á síðasta kjörtímabili var þessi skattlagning tekin í gegn og öll gerð grænni. Fram að þeim tíma var skattkerfið einhverjum árum á undan orðið mjög forneskjulegt borið saman við önnur lönd. Þetta var gert með upptöku kolefnisgjalds. Þetta var gert með því að gera koltvísýringslosun að andlagi, bæði aðflutningsgjalda og bifreiðagjalda. Þetta var gert með því að ívilna sérstaklega og í raun og veru gera skattfrjálsa notkun á hreinum eða umhverfisvænum orkugjöfum eins og rafmagni, metani, vetni eða öðru slíku.

Hvað varðar verðlagningu á dísilolíu annars vegar og bensíni hins vegar þá fór Ísland að þessu leyti alveg sömu leið og önnur nálæg lönd. Það á sér góð og gild efnisleg rök. Það var þannig að framfarir í sparneytni dísilvéla voru á undan sparneytni í bensínvélum. Það er líka þannig, og það varðar Ísland sérstaklega, að stóru aflvélarnar í flutningabílum og slíku eru nánast alfarið dísilvélar. Nægur þykir nú flutningskostnaðurinn á Íslandi samt. Þannig að það voru og eru að því leyti til áfram gild rök fyrir þessu. En ég skal viðurkenna að athygli núna á seinni missirum hefur farið að beinast í meira mæli að sótmenguninni, þá er það eitthvað sem við skoðum og bregðumst við eftir atvikum.

Stóra framtíðarverkefnið á þessu sviði, og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er að líta á það, er auðvitað það að eftir því sem hlutur umhverfisvænna orkugjafa vex í umferðinni verður fyrr eða síðar ekki hjá því komist að sá hluti umferðarinnar fari einnig að taka á sig nokkurn kostnað til að fjármagna innviði samgöngukerfisins. Þessa stefnu þarf að móta langt fram í tímann. Við þurfum að setja okkur ákveðin markmið um hlutföll eða annað slíkt í þeim efnum, hvenær við byrjum aðeins að færa skatta yfir á rafbíla, metanbíla, vetnisbíla hvað það nú verður, (Forseti hringir.) en það þarf að vera fyrirsjáanleiki í þessu og er ekkert svona kjaftæði um að stjórnvöld eigi ekki að reyna að stýra þessu eftir bestu (Forseti hringir.) vitund og hafa einhverja umhverfismeðvitund þegar verið er að móta stefnuna í þessum efnum.