145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[15:09]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrir þessa góðu og þörfu umræðu. Við undirbúning á þessari umræðu bar ég saman samgönguáætlun og frumvarp til fjárlaga fyrir 2016; samgönguáætlun sem við í umhverfis- og samgöngunefnd erum að vinna með núna. Í samgönguáætlun eru aðallega þrír liðir, sérstakur virðisaukaskattur á bensíni, olíugjald, og svo kílómetragjald eða þungaskattur, þetta eru um 20,5 milljarðar. Þetta er uppistaðan í samgönguáætlun. Það sem er ekki í samgönguáætlun er bifreiðagjald upp á 7 milljarða, virðisaukaskattur af bensíni upp á 4,7 milljarða og virðisaukaskattur af bílum upp á tæpa 7,2 milljarða, að öðrum ótöldum gjöldum í kringum varahluti, hjólbarða o.fl.

Mér finnst óeðlilegt að vera að rukka bifreiðaeigendur um þessar gríðarlegu fjárhæðir og að þær skuli ekki renna í samgöngukerfið okkar. Ég held að það sé komin full þörf á því að taka gjaldstofnana til endurskoðunar og hvert þeir renna. Ég held að það sé allt í lagi að hafa þá mikla, hafa þá einfalda, en að þeir muni þá allir renna í uppbyggingu og viðhald á samgöngukerfinu en ekki að sækja almenna skattheimtu í vasa bifreiðaeigenda. Ég held að það sé ógegnsætt. Það er sérstakur skattur á landsbyggðina og þá sem keyra mikið, þá sem hafa tvo bíla. Ég legg til að ráðist verði í vinnu við að endurskoða þetta.