145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ástæðurnar fyrir því að mörg okkar vilja sýna mikla varfærni þegar kemur að tollastefnu varðandi landbúnaðarvörur eru margþættar, þær eiga sér ýmsar rætur. Það eru heilbrigðissjónarmið sem vega þar þungt og mér finnst stundum talað á léttvægan hátt um kosti þess að búa við nær sjúkdómsfría bústofna eins og við gerum á Íslandi. Þetta er öfundarefni margra þjóða. Þetta hefur okkur tekist að gera vegna þess að við höfum sýnt mikla varfærni. Það hefur verið slakað á stundum og það var gert fyrr á síðustu öld. Við sitjum enn uppi með visnuna. Við þekkjum það frá seinni tíð hve fljótt sjúkdómar geta breiðst berist þeir á annað borð milli landa. Það gerist mjög auðveldlega í stofnum okkar sem hafa ekki mótefni.

Nú er verið að tala um að staðfesta samning sem opnar fyrir mikla og aukna verslun með unnar kjötvörur og unnar landbúnaðarvörur. Auðvitað er greinarmunur á því annars vegar og hráu kjöti hins vegar, gerum greinarmun á því. En það er bankað á þessar dyr og margir hafa talað í þá veru við umræðuna að það sé allra meina bót að opna allar gáttir. Það sé í anda neytendasjónarmiða.

Ég tala fyrir hönd neytenda þegar ég er að tala um sjúkdómsfría vöru. Það á við um allar landbúnaðarvörur. Það á líka við um kjúklingana. Það á líka við um svínin. Það á við um eggin. Það á við um þær greinar sem margir vilja bannfæra sem iðnaðarframleiðslu. En það er framleiðsla á matvöru sem er mun sjúkdómsfrírri en gerist hjá grannríkjum okkar og hjá þeim ríkjum sem verið er að tala um að opna á innflutning frá. Þetta er bara veruleikinn.

Þetta er svið sem við viljum ekki samræma okkur niður á við. Við viljum halda sérstöðu okkar eins lengi og við mögulega getum. Ég sagði að ég talaði í anda og fyrir hönd neytenda. Það er fyrir okkar hönd, neytendanna, að fá heilnæma vöru í búðarhillurnar. Fyrir okkur sjálf og börnin okkar og fullorðna fólkið, fyrir samfélagið allt. Þetta eru neytendasjónarmið, kannski mikilvægustu neytendasjónarmiðin sem hægt er að hugsa sér. Ég efast ekkert um að það er hægt að flytja inn hræódýra vöru, svínakál o.s.frv., og fylla allar hillur af hræódýrri vöru en lélegri að gæðum. Ég horfi til gæðanna. Ég horfi til matvöru sem er sýklafrí. Ég horfi til hennar. Nú er verið að opna á aukinn innflutning á slíkum vörum fyrir okkur og börnin okkar og fyrir samfélag okkar. Þetta eru mikilvæg neytendasjónarmið.

Síðan eru atvinnusjónarmið. Við erum með hömlur á flutningi vinnuafls. Miklar hömlur á því. Það kemur ekki hver sem er og fær atvinnu á Íslandi. Það eru ýmsir sem telja að við séum of íhaldsöm í þeim efnum, of hamlandi. En þarna er verið að verja íslenskan vinnumarkað og reyna að koma í veg fyrir atvinnuleysi í landinu, reyna að sjá til þess að við flytjum ekki inn vinnuafl þar sem framboð er til staðar. Þetta er hugsunin. Svo geta menn deilt um hvort það er gengið of langt eða of skammt í þeim efnum, en þetta er hugsunin. En þegar kemur að landbúnaðinum gegnir nú aldeilis öðru máli. Þá er ekkert horft til þessara sjónarmiða. Eða allt of lítið, tel ég vera. Vegna þess að við erum líka að tala um störf. Við erum að tala um það að opna á innflutning á unninni kjötvöru í ríkari mæli en verið hefur, sem að sjálfsögðu mun hafa áhrif á vinnslu á íslenskri landbúnaðarvöru.

Svo ég brenni ekki inni með ályktun sem mig langar til að lesa upp þá er tekið á þessu. Verkalýðsfélagið Framsýn samþykkti þá ályktun sem ég ætla að lesa upp, með leyfi forseta, 20. október 2015. Hún er svohljóðandi:

„Nýgerður milliríkjasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla vekur upp margar spurningar er viðkemur framtíð landbúnaðar á Íslandi og afleiddra starfa í matvælaiðnaði og þjónustu er tengist landbúnaði. Á félagssvæði Framsýnar eru nokkur öflug matvælafyrirtæki sem veita tugum starfsmanna vinnu. Ljóst er að starfsemi þeirra verður sett í mikið uppnám gangi stefna stjórnvalda eftir í breytingum á tollvernd búvara. Matvælaiðnaður á Íslandi er ein af stærstu undirgreinum iðnaðarins með um 17% af heildarveltu í iðnaði, fyrir utan fiskvinnslu. Á síðasta ári störfuðu um 4.000 starfsmenn við matvælaframleiðslu sem flestir eiga það sameiginlegt að vera í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands. Framsýn gagnrýnir samráðsleysi stjórnvalda við verkalýðshreyfinguna sem hefur mikilla hagsmuna að gæta gagnvart þeim fjölda starfa sem eru í hættu verði samningurinn staðfestur af Alþingi. Framsýn kallar eftir úttekt stjórnvalda á áhrifum þess fyrir landbúnaðarhéruðin og starfsmenn í matvælaiðnaði verði tollverndinni breytt. Það er algjört ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að staðfesta breytingarnar frá Alþingi nema allar forsendur liggi fyrir hvað áhrifin varðar.“

Framsýn, hvað er nú það? Það eru ein öflugustu verkalýðssamtök í landinu með innan sinna raða starfsfólk sem er starfandi í matvælaiðnaði. Og þau eru starfandi í landbúnaðarhéruðum. Eru með á þriðja þúsund félagsmenn.

Bændasamtökin hafa líka ályktað. Þau ályktuðu mjög ákveðið, búnaðarþingið 2016, þar sem þau vilja einnig að rannsókn fari fram og að tollasamningurinn verði ekki fullgiltur fyrr en starfshópur sem hafi slíkt með höndum hafi lokið sínum störfum. Síðan segir í texta sem fylgir ályktun frá Bændasamtökunum: Bændasamtökin setja málið í forgang.

Þegar menn tengja þetta búvörusamningunum segi ég sem íslenskur neytandi sem fer út í búð: Ég vil hafna þessu, alveg óháð öllum samningum. Ég geri það sem neytandi. Fyrir utan náttúrlega hversu fáránlega afturhaldsöm hugsun það er að ætla í heimi sem er að berjast við mengun að fara að flytja kjötskrokka á milli landa. Auðvitað eigum við að framleiða kjötið og alla þessa þungavöru í nærumhverfinu. Hvers konar rugl er þetta? Þetta eru afturhaldsraddir. Hvers vegna erum við að halda inn í þennan heim? Hvers vegna styrkjum við ekki íslenskan landbúnað? Heilnæma landbúnaðarframleiðslu? Hvers konar afturhaldsrugl er þetta?

Ég segi, hæstv. forseti: Mér finnst fáránlegt og alveg fráleitt að við samþykkjum þessa tillögu nema gengið verði áður að kröfum verkalýðshreyfingarinnar og ég vísa sérstaklega í ályktun Framsýnar. Sveitarfélögin úti á landi hafa líka ályktað. Þau gera það í Skagafirði. Ég fékk ályktun senda frá einum fulltrúa VG þar, Bjarna Jónssyni, sem hann bar upp í sveitarfélagi sínu. Hann vildi líka láta fara fram rannsókn. Ég veit ekki betur en að því hafi verið vel tekið í Skagafirði. Þessar raddir heyrast víða um landið.

En ég tala hér sem fulltrúi neytenda, tala fyrir hönd þeirra sem vilja tryggja heilnæmar landbúnaðarvörur á Íslandi og fyrir hönd þeirra sem hafna þeirri afturhaldshugsun sem þessir samningar byggja á, að ætla að fara að flytja dauða nautaskrokka á milli landa með ærnum umhverfisáhrifum. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)