145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að það er ekki venja að svara andsvari með annarri spurningu en mig langar engu að síður að biðja hv. þingmann að standa fyrir máli sínu þegar hann staðhæfir í ræðustól að ég hafi mælt gegn erlendum samskiptum. Hvað er þingmaðurinn að fara? Hvernig vogar hann sér að halda þessu fram? Ég vil biðja hann að gera grein fyrir máli sínu.

Við erum hér að fjalla um tiltekið þingmál. Við erum að tala um samning sem var gerður við Evrópusambandið um tiltekna efnisþætti. Það er það sem er til umfjöllunar hér og ég er að tala nákvæmlega um það. Ég segi líka að við fáum varnaðarorð frá verkalýðshreyfingu og víðar að úr samfélaginu um fullgildingu á þessum samningi og menn vilja að áður en menn íhugi slíkt — ég er andvígur því — fari fram úttekt og rannsókn. Ég las upp úr ályktun frá verkalýðsfélaginu Framsýn á Húsavík á Norðausturlandi sem er með innan sinna vébanda á þriðja þúsund manns starfandi í einu stærsta landbúnaðarhéraði landsins. Ég segi: Eigum við ekki að láta þessa úttekt fara fram áður en við höldum áfram með þetta mál? Síðan færði ég rök mín fyrir því að það sé afturhaldshugsun að stuðla að auknum milliríkjasamningum með þunga matvöru. Mér finnst það afturhald og óæskileg þróun. Ég hef fært rök fyrir því.

Síðan leyfi ég mér að tala fyrir þeim sannindum og þeirri staðreynd að við búum við sjúkdómsfrírri bústofna en flestar aðrar þjóðir gera. Þetta er bara staðreynd og veruleiki og ég vakti athygli á því.