145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:33]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Forseti. Ég spurði tiltölulega einfaldrar spurningar og fékk ekki svar. Ég áskil mér hins vegar rétt til að fjalla um afstöðu hv. þingmanns til erlendra samskipta sem var ekki spurning heldur athugasemd mín. Ég spurði hvort hv. þingmaður vildi þá snúa niður af þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir, hætta þeim innflutningi sem nú þegar er orðinn, hægt er að kaupa í verslunum á Íslandi og hefur heldur auðgað íslenskt borðhald.

Varðandi það að lesa úr ályktunum Framsýnar og Bændasamtakanna — ég man ekki betur en að t.d. 1969–1970 hafi Búnaðarsamband Kjalarnesþings samþykkt ályktun þar sem mælt var gegn aðild að EFTA vegna þess að það gæti stuðlað að þéttbýlismyndun sem er náttúrlega forsenda fyrir því að hægt sé að búa í sveitum, að það sé þéttbýli til að kaupa afurðirnar. Sömuleiðis skil ég Bændasamtökin vel vegna þess að þau vilja verja ákveðinn garð — en þau eru ekki að verja lífskjör. Mér er til efs að það hafi nokkurn tímann verið hugsað um lífskjör í þessum virðulegu samtökum.

Spurning mín stendur ósvöruð: Vill hv. þingmaður snúa niður af þeim samningum sem þegar eru orðnir eða eru mörkin hér og nú?

Ég hef lokið máli mínu.