145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:07]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Forseti. Ég ætla í þessum ræðustól að undanþiggja mér ásakanir hv. þingmanns um að ég hafi ekki fylgst með umræðunni. Ég fylgdist alveg þokkalega með umræðunni. Ég ætla nú líka að segja að þær hafa ekki skýrt efni málsins mikið fyrir mér, það sem komið hefur fram í umræðunni. Ef eitthvað skortir á, ef ég hef ekki skilið eitthvað get ég flett því upp í skjölum og horft á það aftur í upptökum. Ég undanskil mér þessar ásakanir hv. þingmanns til fulltrúa í utanríkismálanefnd. Ég hef fylgst alveg þokkalega með umræðunni í tölvu og hef verið að vinna við aðra hluti til þess að gera hlutinn drýgri. En umræðan hefur ekki bætt miklu við nema það að ég veit minna og minna um hugtakið matvælaöryggi, sem virðist nú vera notað fyrst og fremst til þess að búa til einhverja tollmúra og verndarmúra fyrir atvinnugreinar þar sem fólk lifir við sult og seyru.