145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nokkur ágalli þegar stór mál af þessu tagi eru borin fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu. Þá eru í raun og veru ræðutími þingmanna og möguleikar til að koma sjónarmiðum á framfæri afar takmarkaðir. Við höfum í fyrri umr. um tillöguna tíu og svo fimm mínútur og síðan er lokuð seinni umr. Það er lítið samræmi við frumvörp þar sem eru þrjár umræður og 2. umr. opin.

Hvað um það. Ég tek í fyrsta lagi undir það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir lagði áherslu á og fagna því að hún sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd mun beita sér fyrir því og væntanlega fá stuðning við það, að þetta mál verður að vinnast í mjög ríku samráði við atvinnuveganefnd. Það er algjörlega augljóst mál.

Ekki er það síður mikilvægt vegna þess að þessi tvö mál, búvörusamningurinn annars vegar sem nú er genginn til atvinnuveganefndar og þessi tollasamningur sem fer til utanríkismálanefndar, eru á margan hátt mjög samtvinnuð. Til samans mun það móta að verulegu leyti starfsumhverfi landbúnaðarins næstu árin ef þetta verður samþykkt.

Þau atriði sem ég vil á örfáum sekúndum leggja áherslu á í lokin eru í fyrsta lagi það sem ég reyndi að koma aðeins inn á og var tekið undir af hv. þm. Haraldi Benediktssyni um spurninguna um jafnvægi í samningagerðinni. Þegar hið örlitla Ísland með 330 þús. manna markað semur við 500 milljón manna Evrópusamband og býttin gerast að mestu leyti í tonnum á móti tonnum er það mikið umhugsunarefni. Hv. þm. Haraldur Benediktsson, svo ég vitni enn í hann, sagði að honum fyndist það vera lítið jafnvægi.

Ég minni líka á þá óvissu sem steðjar að ef við bætist einhvern tíma á næstu missirum að Ísland tapar algjörlega eða illa málinu um þær heilbrigðis- og hollustukröfur sem við höfum byggt á að undanförnu, að geta varið búfjárstofna og heilnæmi framleiðslu okkar með því að banna innflutning á hráu kjöti og hrámeti og viðhalda ströngum sjúkdóma- og hollustureglum. Þar hefði ég viljað sjá þróunina frekar í áframhaldandi átt að því að gera íslenskan landbúnað enn þá vistvænni og heilnæmari að þessu leyti. Að halda áfram að draga úr sýklalyfjanotkun eins og mögulegt er til þess að minnka líkurnar á ónæmum bakteríum, viðhalda að sjálfsögðu banni við vaxtarhvetjandi hormónum og stefna svo á það fyrr en seinna að hráefni til framleiðslu í landbúnaði á Íslandi skuli vera úr óerfðabreyttu efni. Það væru allt glæsilegir hlutir fyrir íslenskan landbúnað til að flagga inn í framtíðina.

Mér finnst metnaðurinn lítill og ég velti fyrir mér hvar núverandi stjórnvöld, núverandi stjórnarflokkar eru á vegi staddir þegar í staðinn fyrir að standa vörð um hollustu og heilnæmi og að hafa það í huga að viðhalda sem mestri matvælaframleiðslu og að landið sé eftir því sem aðstæður frekast leyfa sjálfu sér nægt og sjái fyrir næringarþörf landsmanna með tryggum hætti, er hér lagður grunnur að því að auka á einhæfni og flutninga með matvæli landa og heimshorna á milli. Þróunin stefnir þá í átt til þess sem oft er kallað mónókúltúr eða einhæfari framleiðsla og miklir flutningar. Það stríðir gegn öllum lögmálum um sjálfbæra þróun og er í andstöðu við mjög vaxandi sjónarmið meðvitaðra og upplýstra neytenda sem vilja hverfa til baka til upprunamerktrar framleiðslu sem hægt er að rekja alveg frá framleiðanda og í kjötborðið eða á diskinn. Í stað þess að hlúa áfram að aukinni sjálfbærni innlends landbúnaðar, t.d. með því að efla innlenda fóðurgerð, kornrækt, í stað þess að styðja sérstaklega við bakið á fjölskyldubústærðum og verjast verksmiðjuþróuninni, sem sætir gríðarlegri gagnrýni þar sem þessi mál eru til umræðu annars staðar, og í stað þess að setja okkur t.d. markmið um að byggja á óerfðabreyttum efnum, þá horfir þetta meira og minna til annarrar áttar.

Innflutningurinn hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og landbúnaðinum og bændum er nú hent út í þetta, kjötiðnaðinum og allri þjónustu við landbúnaðinn, við litla hrifningu.

Má ég þá í lokin, þótt ég hafi ekki tíma til að lesa það, herra forseti, minna á ályktun búnaðarþings 2016? Einhverjir fyrrverandi vonandi stuðningsmenn stjórnarflokkanna hafa setið þar. Hún er ein mjög hörð fordæming (Forseti hringir.) og mótmæli við þessum vinnubrögðum þar sem byrjað er á orðunum: Búnaðarþing 2016 mótmælir harðlega tollasamningi við ESB frá því í haust, og rekur hvernig þetta er í fullkominni andstöðu við það sem menn í orði kveðnu þykjast standa fyrir í þessum efnum. (Forseti hringir.)

Ég fagna því auðvitað að það líður a.m.k. til hausts að menn fari að glíma við afgreiðslu á þessu (Forseti hringir.) og ég tel í raun og veru að það liggi margt fyrir frá umræðunni í dag og um búvörusamninginn sem teiknar til þess að þessi mál tvö, saman, óbreytt, fari ekki í gegn.