145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki oft sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Það sem ég kann að meta í hans fari er að hann er algjörlega hreinskilinn í sinni pólitík.

Hann talar um að það sé úrelt að hafa frjáls viðskipti á milli landa, að einhver framleiði stál og því sé bara siglt á milli heimsálfa og að það sé allt saman úrelt. Ég er bara fullkomlega ósammála, algjörlega í grundvallaratriðum hvað það varðar.

Rekjanleiki vöru. Ég er alveg sammála hv. þingmanni og gagnrýndi það hér varðandi erlendu vöruna að vantar mikið upp á hann. En það vantar að vísu líka upp á hjá íslensku vörunni og við mættum gera miklu betur hvað það varðar og höfum ekki nýtt þau sóknarfæri.

Þetta snýr í rauninni ekki að því hvaðan varan kemur heldur hvaða reglur eða viðmið eru. Vonandi þurfum við ekki að setja reglur um alla hluti. Ég þekki best verslanirnar hér á höfuðborgarsvæðinu og mér finnst það nú vera að gerast að ýmsar verslanir leggi miklu meira á sig í að upplýsa okkur neytendur um hvaðan varan kemur. Mér finnst það alveg frábært. Það eru náttúrlega sérverslanir eða smærri verslanir, Frú Lauga og ýmsar fleiri, en í stórmörkuðum finnst mér það vera að lagast og það finnst mér vera alveg til fyrirmyndar.

En þetta snýr ekki að því hvaðan varan kemur heldur er það spurningin um hvernig framsetningin er.

Hv. þingmaður segir að það séu 12–15 bú, um 20 aðilar, sem framleiða svína- og kjúklingakjöt. Mér finnst það að vísu ekki vera röksemd með málinu. Það er nú mjög fátt, jafnvel þótt við Íslendingar séum ekki sérstaklega margir, að vera með 20–25 aðila að hámarki sem koma að þessum málum. Það nú ekki mikið.

Hv. þingmaður talar um sjálfbærni, sem er mjög mikilvæg. Er hv. þingmaður með einhverjar skoðanir varðandi sjálfbærni varðandi umhverfismálin? Nú hafa komið umsagnir frá náttúruverndarsamtökum um að (Forseti hringir.) þau hafi áhyggjur af ofbeit og öðru slíku, ágangi búfjár. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hann á móti innflutningi, en þá þurfum við að auka framleiðsluna allverulega. (Forseti hringir.) Það er þá spurning hvar það verður gert ef (Forseti hringir.) við ætlum að halda okkur við sjónarmið og markmið um sjálfbærni.