145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[16:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í upphafi stóð til að ræða þessa þingsályktunartillögu sem er um tollasamkomulag á milli Íslands og Evrópusambandsins samhliða búvörusamningnum. Af einhverjum ástæðum var það ekki gert. Það voru sögusagnir um eitthvert ósætti hér og þar, það hefði verið þess vegna, en ég veit ekkert um það.

Við umræðuna um búvörusamninginn vorum við að tala um styrki til bænda á tíu árum allt upp í 160 milljarða. Eins og ég sagði þá er ég alls ekki á móti því að styrkja bændur á ýmsan hátt. Ég tel að það þurfi að breyta kerfinu eins og það er núna, en ég segi fyrr má nú fyrr vera, þessar upphæðir í búvörusamningnum, og þess utan nemur tollverndin sem íslenska landbúnaðarafurðir njóta rúmum 9 milljörðum á ári. Þannig að það er ekki eins og ríkisvaldið styðji ekki við íslenska landbúnaðarframleiðslu.

Ég vil segja það varðandi þennan samning að ég er hlynnt honum og ég er hlynnt öllum þeim ráðstöfunum sem eru gerðar til þess að vöruverð og matarverð á Íslandi lækki. Ég held að sé tvennt sem er aðallega að hjá okkur, náttúrlega margt, en það er tvennt sem gerir það erfitt að búa hérna, gerir unga fólkinu erfitt að koma sér fyrir; það er annars vegar lágt kaup og hins vegar hátt matarverð. Ef við getum hækkað launin og lækkað matarverðið þá verða strax til meiri peningar fyrir unga fólkið til að setja í húsnæði og annað. En þetta eru grunnþarfir. Þess vegna fagna ég öllu því sem verður til þess að lækka matarverð á Íslandi. Þetta mál leiðir í þá átt.

Ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvað þessar lækkanir eru miklar, en það er ekki eins og við séum með þessum tollalækkunum hugsanlega að hleypa einhverjum nýjum vörum inn í landið sem ekki hafa verið hér áður. Hér er allt fljótandi í erlendu kjúklingakjöti og erlendu svínakjöti, vegna þess að við framleiðum ekki nóg. Það er meira að segja umframeftirspurn eftir nautakjöti af því að við framleiðum ekki nóg. Við þurfum að flytja þetta inn fyrir okkur til að borða og fyrir alla þá gesti sem koma hingað til landsins. Þá segir fólk: Þau eiga bara að borða lambakjöt. Það er nú eitt sem við fáum með þessu, við fáum meiri útflutning fyrir tollfrjálst lambakjöt til Evrópusambandsins. Fólk segir: Já, ferðamennirnir eiga bara að borða lambakjöt. En útlendingar eru ekkert jafn vanir og við að borða lambakjöt og þeim finnst það ekkert gott. Ætlum við þá að standa á veitingastöðum og segja: Þetta er víst gott, góði, eins og sagt er stundum við börn þegar verið er að fá þau til að smakka eitthvað nýtt. Þannig er ekki lífið. Þannig að ég fagna þessari tillögu.

En ég vil líka geta þess, í sambandi við búvörusamningana sem við ræddum í síðustu viku, að þar er líka talað um miklar breytingar á tollum á mjólkurdufti og ostum, svo var eitthvað eitt annað sem ég man ekki nákvæmlega hvað var. Það er engin smáhækkun sem bændur eru að fara fram á að verði samhliða búvörusamningum á þessum afurðum. Það er 100% hækkun.

Virðulegi forseti. Ég vil að landið sé allt í byggð. Ég vil styrkja bændur. Ég vil gera það með öðrum aðferðum en við gerum núna. Ég vil gera það þannig að verð á matvörum í landinu lækki. Þess vegna styð ég þetta mál af því að ég tel að það sé eitt af því mest áríðandi sem þarf að gerast hér, það er að matarverð lækki og kaupið hækki.