145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[16:53]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta framsögu um þjóðaröryggisstefnu og mikilvægi hennar. Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. ráðherra varðandi trúnaðarákvæðið. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Fundir þjóðaröryggisráðs skulu haldnir fyrir luktum dyrum og trúnaður ríkir um það sem gerist á fundum þess.

Að sama skapi segir hér um 7. gr.:

„Þrátt fyrir það er talið rétt að fundargerðir og önnur gögn ráðsins lúti upplýsingalögum eins og önnur sambærileg gögn.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hversu miklar takmarkanir yrðu þá á þessum gögnum þegar kemur að því að afhenda þau í skjalasöfn. Ég geri ráð fyrir að farið verði með þessi gögn líkt og öll önnur mikilvæg gögn í stjórnsýslunni. Ég spyr hvort einhverjar sérstakar takmarkanir verði á því hvenær megi opna fyrir þessi gögn. Það sem kemur fram á fundum í þjóðaröryggisráði er náttúrlega eitthvað sem er mjög mikilvægt fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar og okkur sem erum að reyna að skoða pólitíkina og skilja samhengi málanna eftir á. Þetta er eitthvað sem er mikilvægt að hafa í huga, þessi gögn, það þurfa að vera skýrari reglur um það hvernig þau eru birt seinna meir þar sem ekki þýðir að loka á þetta um aldur og ævi, vænti ég.