145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[16:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð. Ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum þegar ég sá frumvarpið og hvernig það liggur fyrir því að mér finnst það ekki endurspegla þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í nýsamþykktri þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Mér finnst textinn sem hér birtist miklu frekar taka mið af frumvarpinu um þjóðaröryggisstefnu eins og það kom frá hæstv. þáverandi utanríkisráðherra þar sem þjóðaröryggi var skilgreint miklu þrengra en síðan varð við lokaafgreiðslu málsins, þar sem hv. utanríkismálanefnd gerði breytingar sem voru allar í þá átt að víkka skilgreininguna á þjóðaröryggi.

Það kemur fram á bls. 4 í athugasemdum við þetta frumvarp, í III. kafla þar sem fjallað er um meginefni frumvarpsins, að hugmyndin um þjóðaröryggisráð eins og hún birtist í þingsályktunartillögunni sem við samþykktum sé nokkuð frábrugðin því sem tengist annars staðar á Norðurlöndum, enda sé umhverfi öryggis- og varnarmála um margt frábrugðið á Íslandi sem sé herlaust ríki. Ég velti fyrir mér hvort það sé kannski ástæðan, vegna þess að við erum herlaust ríki er að mínu viti mjög eðlilegt að við séum með öðruvísi þjóðaröryggisstefnu sem er víðari. Þetta finnst mér helst koma fram í 3. og 4. gr. þessa frumvarps þar sem er tekið fram að það séu forsætisráðherra og ráðherra sem fer með utanríkis- og varnarmál og ráðherra sem fer með almannavarnir auk ráðuneytisstjóra þessara ráðuneyta, ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar sem eiga sæti í ráðinu.

Það er síðan tekið fram að embættismönnum og öðrum starfsmönnum ráðuneyta og opinberra stofnana sem hlut eiga að máli sé skylt að mæta á fundi ráðsins sé þess óskað. Það er þess vegna dálítið þröngur hópur, finnst mér, sem hér er gert ráð fyrir að skipi þjóðaröryggisráðið. Það vantar aðkomu sérfræðinga, t.d. á sviði heilbrigðismála og því sem varðar loftslagsbreytingar, náttúruhamfarir, fæðu- og matvælaöryggi og farsóttir. Í raun finnst mér eins og vanti svolítið inn í það sem kemur fram í 7. gr. þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem er einmitt ein megingreinin sem víkkar út þetta þjóðaröryggishugtak og er í algeru samræmi við það sem kom frá þingmannanefnd sem hafði verið að störfum undir stjórn hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttir, sem var aftur byggð á vinnu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafði sett af stað í ráðherratíð sinni.

Svo ég haldi áfram með það sem mér finnst vanta þá segir í 4. gr. að það sé þjóðaröryggisráðsins að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur mál er varða þjóðaröryggi. Önnur málefni finnst mér vera svolítið eins og eftirmálsgrein við hitt.

Þetta finnst mér vera eitthvað sem við í hv. utanríkismálanefnd, og vonandi í samstarfi við hæstv. utanríkisráðherra, eigum að taka til skoðunar til þess að þjóðaröryggisráðið endurspegli betur þá þjóðaröryggisstefnu sem við höfum samþykkt. Líkt og ég hef lýst finnst mér áherslan hérna vera of mikið á það sem má kannski kallast öryggis- og varnarmál en önnur hnattræn ógn og ekki síst samfélagslegir áhættuþættir verða eins og eftirmálsgrein sem hefur verið skrifuð inn í frumvarpið eftir á. Það tel ég að nefndin eigi að skoða og lagfæra og breyta.

Það er hins vegar þannig að þjóðaröryggisstefna er, líkt og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu, nýmæli á Íslandi. Það sama gildir um þjóðaröryggisráðið. Það hefur engin sambærileg stefna verið til áður né ráð verið til á Íslandi fram að þessu. Það er því kannski ekkert skrýtið að taka þurfi þessi mál til umræðu og skoðunar og betrumbóta. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að nefndin rýni málið vel. Svo kom það enn fremur fram í andsvörum áðan þar sem hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir spurði út í 7. gr. frumvarpsins sem fjallar um trúnaðarákvæði. Þá má aftur segja að það tengist þeirri áherslu sem hefur verið á öryggis- og varnarmál og hefur verið í meira hernaðarlegum fasa, ef ég get leyft mér að segja það, að um það ríki trúnaður og það þurfi að fara fram fyrir luktum dyrum. Ég held að það séu einmitt ýmsir þættir sem tengjast almannavarna- og öryggishlutanum sem þurfi ekkert að ríkja neinn trúnaður um og sé gott að sé opið og til umræðu í samfélaginu. Þar með er ég reyndar ekki að segja að mér finnist að trúnaður eigi að ríkja um hin málin, öryggis- og varnarmálin, því að ég held að það gildi líka um þau að þar sé allt uppi á borðum og að þjóðin og þingmenn viti allt sem er að gerast þar.

Ég held að það séu ýmis atriði í þessu frumvarpi sem hv. utanríkismálanefnd þarf að skoða. Það eru atriði sem þarf að breyta og bæta við til þess að þjóðaröryggisráðið og þetta frumvarp til laga um þjóðaröryggisráð nái að endurspegla þá þjóðaröryggisstefnu sem við erum nýbúin að samþykkja fyrir Ísland.