145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[17:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð nú að segja að ég er ekki á ósvipuðum slóðum og þeir ræðumenn sem hingað til hafa tjáð sig um þessi mál úr hópi óbreyttra hv. þingmanna. Ég var satt að segja dálítið hissa á því að sjá frumvarpið hvað varðar 3. gr. og skipan þjóðaröryggisráðs þar sem lagt er til að forsætisráðherra, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra sitji í ráðinu auk ráðuneytisstjóra viðkomandi ráðuneyta og jafnframt eigi ríkislögreglustjóri og forstjóri Landhelgisgæslunnar sæti í ráðinu. Mér finnst það ekki endurspegla þá nálgun sem reynt var að viðhafa í vinnu þingmannanefndarinnar, sem ég kom nú raunar lítillega að sjálf undir lok þeirrar vinnu sem átti að snúast um að breikka öryggishugtakið. Mér finnst þetta frumvarp hins vegar vera eins og sniðið út úr fyrri hugmyndum um öryggishugtakið. Mér finnst það vera, með leyfi frú forseta, „a blast from the past“, svo ég sletti á ensku, sem er auðvitað bannað, því að mér finnst það bera vott um gamaldags sýn á þjóðaröryggishugtakið. Mér finnst það líka bera vott um að frumvarpið hafi verið smíðað áður en Alþingi lauk meðferð tillögunnar um þjóðaröryggisstefnu, því að hún tók breytingum í þinginu. Það var einmitt gagnrýnt við hana þegar hún var lögð fram af þáverandi hæstv. utanríkisráðherra að hún endurspeglaði ekki hina breiðu sýn á öryggishugtakið.

Ég vil minna á að í skýrslu þingmannanefndarinnar sem lögð var fram voru þær ógnir sem steðja að Íslandi flokkaðar í þrjá flokka. Fyrsti flokkurinn er umhverfisvá eða slys vegna aukinna umsvifa á norðurslóðum, annar flokkurinn eru netógnir eða skemmdarverk á innviðum samfélagsins og þriðji flokkurinn er náttúruhamfarir. Ég velti því fyrir mér af hverju t.d. umhverfisráðherra situr þá ekki í þessu ráði eða einhverjir sérfræðingar á því sviði sem tengist náttúruvá, og svo auðvitað loftslagsmálum, sem eiga væntanlega eftir að hafa veruleg áhrif á þær ógnir sem steðja að okkur.

Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem talaði hér á undan: Væri ekki rétt að Landsbjörg kæmi að þessum málum? Landsbjörg er fyrst og fremst sá aðili sem bregst við því þegar náttúruhamfarir eða annað slíkt dynur yfir. Þá er hún mætt á svæðið. Hvernig nákvæmlega sjáum við fyrir okkur netógnina í þessu?

Ég vil svo nefna í númer 2 kemur skipuleg glæpastarfsemi. Vissulega er ríkislögreglustjóri hér. Fjármála- og efnahagsöryggi, sem er auðvitað erfitt að skilgreina. En ef við meinum eitthvað með því að breikka öryggishugtakið hvar er það? Er ekki eðlilegt að landlæknir komi inn í þetta ráð út frá þeim flokkum sem eru nefndir í flokki tvö, heilbrigðisöryggi, farsóttir og fæðu- og matvælaöryggi? Í þriðja flokki eru hernaðarógn og hryðjuverk.

Ég vil líka taka það fram að mér fannst hugmyndin ekki vitlaus. Spurningin er: Hvar ætlum við að afmarka okkur? Hvar eigum við að afmarka einhverja? Við getum kannski ekki haft 20 manna þjóðaröryggisráð. Ég skil alveg sjónarmið hæstv. ráðherra hvað það varðar. Er þá eðlilegra að þjóðaröryggisráðið sé fyrst og fremst skipað pólitískum fulltrúum, þ.e. ráðherrum og hugsanlega þingmönnum úr utanríkismálanefnd, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi, en geti kallað til sín sérfræðinga, hvort sem það er ríkislögreglustjóri, Landsbjörg, Póst- og fjarskiptastofnun, ef um netöryggi er að ræða? Veðurstofan, ef um veðurvá er að ræða? Væri ekki eðlilegri skipan mála að þjóðaröryggisráðið væri ekki skipað sérfræðingunum en lýðræðislega kjörnum fulltrúum sem sjá um að stefnunni sé fylgt og geta kallað til sín sérfræðinga?

Reynt hefur verið og það var gert í utanríkismálanefndinni að tryggja sem breiðasta sátt og samkomulag um nýja þjóðaröryggisstefnu og hvernig við viljum sjá hana þróast. Þeir sem lagt er til að séu í ráðinu eiga allir heima þar, en mér finnst vanta hin breiðu sjónarmið sem eiga að endurspegla stefnuna. Ef við viljum komast hjá því að ráðið verði tíu manna ráð eða sjö manna ráð — ég veit ekki hvernig svona ráð eru skipuð annars staðar og treysti því að hv. utanríkismálanefnd fari yfir það í vinnu sinni, en ég velti því fyrir mér hvort eðlilegra sé að þarna sitji fámennt ráð sem standi fyrir Alþingi og ríkisstjórn og hafi tök á því að hafa með sér einhvers konar ráðgjafarnefnd þar sem eru þeir sérfræðingar sem standa fyrir þessi mál.

Í tillögunni sem samþykkt var á endanum er t.d. talað um netöryggi. Talað er um fjármála- og efnahagsöryggi sem er í takt við það sem rætt var. Og nú ætla ég að ímynda mér að við séum stödd í september 2008 og þjóðaröryggisráðið er komið á laggirnar, skiljið þið, ég sé það fyrir mér. Er það þá kallað saman? Á hverju mundi þjóðaröryggisráð þurfa að halda? Það mundi ekki þurfa á Landhelgisgæslunni að halda í þeirri vá sem vofði yfir okkur í september 2008, en það mundi væntanlega þurfa að hafa seðlabankastjóra og Fjármálaeftirlitið með í ráðum til þess að átta sig á hvernig bregðast ætti við þeirri vá sem óneitanlega var hér, því að eins og hæstv. ráðherra þekkir mætavel úr sínum fyrri störfum horfðum við í raun fram á fóðurskort í landinu, lyfjaskort, og það út af fjármála- og efnahagsvá.

Þá velti ég því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegra að þarna fáum við lýðræðislega samsett ráð sem tryggi aðkomu stjórnar og stjórnarandstöðu, en auðvitað líka þeirra ráðherra sem mest mæðir á. Rökstyðja má að það séu þeir ráðherrar sem nefndir voru, en þeir geti þá kallað til sín sérfræðinga.

Um daginn var gerð einhvers konar netárás á heimasíðu ráðuneyta. Er þá ekki eðlilegt að þjóðaröryggisráð geti í því tilfelli kallað til ríkislögreglustjóra og Póst- og fjarskiptastofnun? Ég velti því fyrir mér, upp á að reyna að tryggja að við séum með hreinar línur og að skipun í ráðið endurspegli þá hugsun sem var á bak við stefnuna og ályktunina sem var á endanum samþykkt á þinginu, þ.e. hið breiða öryggishugtak. Ég held að það sé mjög mikilvægt að okkur miði fram á við í þessum málum, að við komumst út úr gömlum hugmyndum um öryggismál og séum trú þeirri hugmyndafræði að öryggisógnir geti verið af ýmsum toga og ekki alltaf fyrirsjáanlegar.

Svo ég taki aftur upp hugmyndina um að hverfa aftur í tímann þá hefði líklega ekki nokkur maður talið árið 2007 að líklegast væri að fjármála- og efnahagsvá mundi skella á landinu. Þess þá heldur er mikilvægt að við séum þarna með breiða yfirsýn því að það er ekki alltaf fyrirsjáanlegt hvað gerist. Þetta var það sem ég vildi segja um þetta mál, frú forseti.