145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

788. mál
[17:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér finnst nauðsynlegt að benda á að á Alþingi Íslendinga er a.m.k. einn flokkur sem er á móti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og mér finnst rétt að minna á það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi haft það á stefnuskrá sinni að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga, því að það er það sem NATO er, eða Atlantshafsbandalagið, þetta er ekki menningarklúbbur eins og stundum mætti halda af þeirri umræðu sem við eigum um þessi mál, heldur hernaðarbandalag. Þá má spyrja ýmissa spurninga um það hvernig þróunin innan Atlantshafsbandalagsins hefur verið á undanförnum árum með breyttu landslagi í alþjóðastjórnmálum þar sem bandalagið hefur í raun og veru breyst og þróast, en svo sannarlega ekki dregið saman starfsemi sína. Það var áhugavert að sjá að þegar kalda stríðinu lauk formlega á hinu pólitíska sviði fór Atlantshafsbandalagið í það að finna sér ný verkefni enda um mikla hagsmuni að ræða. Það er umhugsunarefni þegar við skoðum átakasvæðin í heiminum og hvaða hagsmunir eru þar undir — þar eru oft miklir hagsmunir undir, bæði vopnaframleiðenda og líka annarra hagsmunaaðila sem koma að málum — að því miður hefur það oft verið raunin, hvort sem Atlantshafsbandalagið hefur komið þar að eða einhver einstök aðildarríki þess eins og hefur líka gerst, að ráðist hefur verið í átök án þess að aðrar leiðir hafi verið fullreyndar og án þess að pólitískar lausnir hafi verið fullreyndar, einmitt vegna þess að hagsmunirnir eru svo miklir sem knýja áfram þessa átakavél.

Við vorum að ræða um þjóðaröryggisráð og þjóðaröryggisstefnu og eitt af því sem var ágreiningur um í þeirri nefnd sem fjallaði um þau mál var ákvæðið sem rataði inn í stefnuna og gerir það að verkum að ég get ekki annað en lýst talsverðri ánægju með hana, þ.e. ákvæði um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnavopnum. Það lá líka fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þingmannanefndinni bókuðu sérstaklega fyrirvara við þá tillögu nefndarinnar að unnið yrði að friðlýsingu Íslands, lands og landhelgi, fyrir kjarnavopnum, þar sem slíkt væri í raun óframkvæmanlegt og gengi gegn alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hafi undirgengist, m.a. með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Það er nefnilega staðreynd að þó að ýmsar alþjóðastofnanir hafi beitt sér mjög fyrir banni kjarnavopna — enda held ég að hvert og eitt okkar sem einstaklingur sé á móti þeim og að ekki nokkur maður í þessum þingsal geti sagt annað en að hann sé á móti notkun kjarnavopna eftir að við vitum hvaða afleiðingar sú takmarkaða notkun sem reynd hefur verið hefur haft í för með sér — er það eigi að síður svo að Atlantshafsbandalagið hefur rekið virka stefnu um að koma sér upp kjarnavopnabúri sem má deila um.

Ég velti því fyrir mér líka hvaða áhrif t.d. aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu hefur á þá tillögu sem er núna til umfjöllunar í utanríkismálanefnd Alþingis og ég er fyrsti flutningsmaður að, sem lýtur að því að Ísland beiti sér á alþjóðavettvangi gegn svokölluðum sjálfstýrðum vígvélum, þ.e. vígvélum sem eru í raun og veru búnar gervigreind þannig að ekki þarf neina mannlega aðkomu að notkun þeirra. Þeir sem fylgjast með þessari umræðu á alþjóðavettvangi vita að þetta er handan við hornið í þróun gervigreindar. Það er umhugsunarefni að helstu vísindamenn heimsins á sviði gervigreindar hafa hvatt til þess að ríki heims beiti sér fyrir banni á slíkum vopnum. Hvaða áhrif hefur aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu á það hvaða afstöðu við tökum í þessu máli? Þó er ég alveg viss um að persónulega hafi hver og einn þingmaður andstyggð á þessum vopnabúnaði og vilji ekki sjá þetta.

Staðreyndin er sú að hvert og eitt okkar með okkar persónulegu skoðanir, tilfinningar og allt það, má sín kannski lítils þegar kemur að svona bandalagi sem keyrir áfram á þessum sterku hagsmunaöflum. Ég tel að Ísland gæti haft miklu meiri áhrif utan bandalagsins í ljósi þess að öryggishugtakið er breytt frá því sem áður var. Þannig ættum við að starfa, einbeita okkur að starfi okkar innan Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðasamtaka sem byggjast ekki á hernaðarsjónarmiðum. Af þessum sökum, af því að hér er verið að ræða um að stækka bandalagið með því að veita Svartfjallalandi aðild að því, finnst mér nauðsynlegt að minna á að þetta er ekki bara einhver notalegheitaklúbbur, þetta er bandalag sem byggir á gríðarlegri uppsetningu vopnakerfa á sínu svæði sem hefur í raun og veru stækkað talsvert eftir að kalda stríðinu lauk, sem byggir á miklum hagsmunum þeirra sem framleiða þessi vopn, og við getum velt fyrir okkur árangrinum. Það er alltaf erfitt því að við erum auðvitað bundin sögunni og hvernig hún hefur þróast og það er erfitt að setja söguna í viðtengingarhátt, en ég held þó að oft getum við fundið dæmi í sögunni þar sem hægt hefði verið að komast hjá átökum sem því miður hefur verið ráðist í af því að þær raddir hafa verið sterkari en þeir sem hafa talað fyrir hinum pólitísku lausnum. Það er miður fyrir þá sem hafa orðið fórnarlömb þessara átaka.

Það er umhugsunarefni að í átökum síðari tíma er það því miður svo að þeir sem falla í slíkum átökum eru í vaxandi mæli óbreyttir borgarar, konur og börn. Þannig eru átök samtímans kannski ólík þeim átökum sem við höfum áður séð. Það er sorglegt að sjá þegar Atlantshafsbandalagið hefur verið að biðjast afsökunar á mistökum, eins og það hefur verið orðað, þegar jafnvel heilu brúðkaupsveislurnar hafa verið sprengdar í loft upp fyrir mistök. Við verðum að hugsa um hvernig okkur liði ef slíkar veislur væru sprengdar upp hérna uppi í Hamrahverfi í Grafarvogi eða á Seltjarnarnesinu eða hvar það væri, síðan kæmi fram afsökunarbeiðni vegna mistaka. Þetta er því miður raunin þegar við horfum á átök síðustu ára, vaxandi hlutfall óbreyttra borgara sem fellur þrátt fyrir samþykktir Genfarsáttmálans. Það hlýtur að vekja upp spurningar hjá hverju og einu okkar hvort við teljum virkilega að þetta bandalag sé það sem þjóni hagsmunum Íslendinga best, hagsmunum mannkynsins best, því að það er auðvitað þannig að við getum ekki horft á þetta bara út frá þröngum þjóðarhagsmunum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við tökum þetta mál til umræðu, herra forseti.