145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

timbur og timburvara.

785. mál
[18:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um timbur og timburvöru. Þann 3. maí 2013 samþykkti sameiginlega EES-nefndin að fella bæri inn í EES-samninginn þrjár gerðir er fjalla um markaðssetningu timburs og timburvara á EES-svæðinu. Um er að ræða reglugerð nr. 995/2010, um skyldur rekstraraðila sem setja timbur og timburvörur á markað, svokallaða timburreglugerð, auk tveggja annarra reglugerða er snúa að framkvæmd timburreglugerðarinnar.

Alþingi samþykkti 27. febrúar 2015 þingsályktun um staðfestingu fyrrgreindrar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar. Með þeirri ályktun var stjórnskipulegum fyrirvara aflétt.

Til að hægt sé að innleiða reglugerðirnar hér á landi þarf lagastoð og er frumvarp þetta lagt fram af því tilefni. Verði frumvarpið að lögum er ætlunin að innleiða framangreindar EES-gerðir á grundvelli laganna í formi reglugerðar.

Eftirspurn eftir timbri og timburvörum hefur aukist á heimsvísu og er ólöglegt skógarhögg útbreitt vandamál. Skógar gefa af sér umtalsverðan umhverfislegan ávinning sem mikilvægt er að hlúa að, enda er sá ávinningur lífsnauðsynlegur mannkyninu. Ólöglegt skógarhögg er mál sem nauðsynlegt er að taka á, en skógum heimsins stafar umtalsverð hætta af því. Ólöglegt skógarhögg veldur skógeyðingu og hnignun skóga sem sýnt hefur verið fram á að orsaki um 20% af losun koltvísýrings í heiminum, ógnar líffræðilegri fjölbreytni, grefur undan sjálfbærri skógarstjórnun og þróun, eykur jarðvegseyðingu og getur ýtt undir veðurhamfarir og flóð.

Markmið með innleiðingu timburreglugerðarinnar er margþætt. Í fyrsta lagi er horft til þess að hún vinni gegn ólöglegu skógarhöggi með því að banna markaðssetningu timburs og timburvöru úr ólöglega höggnum viði. Í öðru lagi er markmið hennar að stuðla að sjálfbærri skógarstjórnun og í þriðja lagi er um mikilvægt umhverfisverndarmál að ræða, en vonast er til að innleiðing reglugerðarinnar muni eiga þátt í því að draga úr loftslagsbreytingum á kostnaðarhagkvæman hátt.

Frumvarpið var unnið í samráði við Mannvirkjastofnun, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að stofnunin fari með eftirlit með framkvæmd laganna og þeim reglugerðum sem settar verða í kjölfarið. Að auki var haft samráð við Skógrækt ríkisins og tollstjóra vegna hlutverks þeirra.

Þegar drög að frumvarpi lágu fyrir voru þau sett í opið umsagnarferli á vef ráðuneytisins.

Ég mun nú fara yfir meginefni frumvarpsins. Markmið með setningu laganna er að koma í veg fyrir viðskipti með ólöglega höggvinn við og að timbur og timburvörur úr ólöglega höggnum viði sé sett á markað hér á landi. Gildissvið frumvarpsins tekur til innflutnings, markaðssetningar og notkunar á timbri og timburvörum eins og þær eru skilgreindar í timburreglugerðinni og skyldum gerðum. Frumvarpið gildir ekki um sölu á innri markaði á timbri og timburvörum sem þegar hafa verið markaðssettar.

Í frumvarpinu er kveðið á um skyldur þeirra aðila sem markaðssetja timbur og timburvörur í fyrsta sinn á innri markað hér á landi. Þeir aðilar þurfa að koma sér upp svokölluðu kerfi áreiðanleikakannana en það er kerfi sem felur í sér ráðstafanir og verklagsreglur til að lágmarka áhættuna á að timbur úr ólöglegu skógarhöggi og vara úr slíku timbri sé sett á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins. Gert er ráð fyrir að svokallaðar vöktunarstofnanir bjóði upp á kerfi áreiðanleikakannana.

Eins og ég kom inn á áðan mun Mannvirkjastofnun fara með eftirlit með framkvæmd laganna og þeim reglugerðum sem settar verða í kjölfarið. Í því skyni mun stofnunin m.a. viðhafa opinbert markaðseftirlit til að sannreyna að þær vörur sem settar eru í fyrsta skipti á innri markað Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi uppfylli skilyrði laganna, með öðrum orðum að það timbur og þær timburvörur sem eru á markaði hér á landi séu ekki úr ólöglega höggnum viði.

Skógrækt ríkisins mun einnig hafa hlutverk samkvæmt lögunum. Skógrækt ríkisins er sú fagstofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fer með skógræktarmál í landinu. Því er gert ráð fyrir að hún muni á grundvelli þeirrar sérþekkingar sem hún hefur yfir að ráða veita Mannvirkjastofnun ráðgjöf auk þess að rannsaka og framkvæma prófanir á timbri og timburvörum sem Mannvirkjastofnun hefur tekið sýnishorn af.

Hlutverk tollstjóra er einnig skilgreint í frumvarpinu. Það er að veita Mannvirkjastofnun upplýsingar um innflutning á timbri og timburvörum sem falla undir frumvarpið.

Í V. kafla frumvarpsins er m.a. fjallað um þvingunarúrræði. Við opinbert markaðseftirlit er nauðsynlegt að sú stofnun sem fer með eftirlit hafi nauðsynleg úrræði til að eftirlitið sé virkt. Því er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Mannvirkjastofnun hafi heimild til að skoða timburvörur hjá kaupmönnum og rekstraraðilum, taka sýnishorn af timbri eða timburvöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn. Að auki getur stofnunin gripið til úrræða eins og áminningar, kröfu um úrbætur, dagsekta og innköllunar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.